Kára heitt í hamsi í ræðu um nýjan spítala

09.01.2016 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskra erfðargreiningar, var heitt í hamsi þegar hann tók til máls á málfundi Pírata um nýbyggingu LSH. Kári spurði hvernig þau vogaði sér að gera það að deiluefni hvar nýr spítali ætti að rísa þegar mestu máli skipti að fjárfesta betur í íslenskri heilbrigðisþjónustu. „Það skiptir engu fokking máli hvar svona andskotans spítali er reistur,“ sagði Kári – það væri algjört aukaatriði. „Give me a fucking chance.“

Kári sagðist í lok ræðunnar vera bæði reiður og svekktur með þessa umræðu – til að vera samkvæmur sjálfur sér myndi hann því yfirgefa fundinn og hann stóð við stóru orðin – Kári var næstsíðastur á mælendaskrá á fundinum.

Sara Elísa Þórðardóttir, sem á sæti í framkvæmdaráði Pírata, deildi myndbandi af ræðu Kára á Facebook-síðu sinni. Ræðan hefur vakið nokkra athygli – um hana hefur verið meðal annars fjallað á visir.is. 

ÞAÐ SEM KÁRI SAGÐI. Takk.

Posted by Sara Oskarsson on 9. janúar 2016

Kári rakti í ræðu sinni erfiða reynslu af íslenska heilbrigðiskerfinu og hvernig Ísland stæði sig í samanburði við hin Norðurlöndin og bað fundargesti ekki gleyma því til hvers heilbrigðiskerfið væri. „Markmiðið hjá okkur er ekki endilega að gera það sem er skynsamlegast út frá skipulagsfræði heldur að hlúa að veiku fólki.“

Hann sagði að verkefni Pírata, sem væri nýtt ferskt afl í íslenskum stjórnmálum, að fjárfesta betur í heilbrigðisþjónustunni. „Við þurfum að sjá til þess að gera það almennilega, hvar svo sem [nýr] spítali er niðursettur.“ 

Kári hefur verið mjög gagnrýnin á stefnu íslenskra stjórnvalda í heilbrigðismálum. Hann birti hvassa grein í Fréttablaðinu um miðjan síðasta mánuð þar sem hann sagðist ætla að safna  100.000 undirskriftum fólks sem lofaði að kjósa aldrei aftur ríkisstjórnarflokkana, ef fjárlagafrumvarpinu yrði ekki beytt. 

 

ATH: Í upphaflegri frétt stóð að Kári hefðir verið fyrstur á mælendaskrá. Hann var næstsíðastur.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV