Kannast ekki við aukna neyslu

01.03.2016 - 17:13
Þó að einkaneysla hafi á síðasta ári aukist um tæp fimm prósent segir fólk á förnum vegi, sem Spegillinn ræddi við í dag, að eigin neysla hafi almennt ekki aukist síðustu misseri. Bílakaup jukust um tæp 50 prósent á síðasta ári og því er spáð að neyslan aukist meira en fimm af hundraði á þessu ári.

Það virðist vera byrjað að fenna yfir hrunárin, að minnsta kosti þegar litið er á tölur um einkaneyslu landsmanna. Neyslunni sló harkalega niður 2008 og dróst hún saman um rúm 9 af hundraði. 2010 vorum við aftur komin á núllið en frá 2014 hefur neyslan tekið kipp. Í fyrra er talið að einkaneyslan hafi aukist um 4,7 prósent að meðaltali. En tölurnar á bak við meðaltalið eru æði misjafnar. Það dró til dæmis úr kaupum á almennri dagvöru um tæpt eitt prósent og þá erum við að bera saman árin 2014 og 15. Áfengissalan jókst um 3,4%, fatasala um 1,5% og kaup á húsgögnum um rösk 15 prósent. 

Helmingi fleiri bílar
En svo færist fjör í leikinn. Sala á stórum raftækjum; ísskápum, þvottavélum og því um líku; jókst um tæp 30 prósent. Sala á öðrum raftækjum um rúm 32% og sala á farsímum jókst um 33%. Sala á tölvum jókst hins vegar aðeins um 7,7 prósent. Þessar tölur eru fengnar frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Og bílakaupin ruku upp í rjáfur því þau jukust um heil 48% samkvæmt tölum frá Bílgreinasambandinu.

Og veislan heldur áfram því samkvæmt endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofunnar er því nú spáð að vöxtur einkaneyslunnar verði meiri í ár en fyrra eða um 5,2%; 4,2% 2017; 3,2% 2018 og um 3% eftir það. Ef svo fer fram sem horfir skýst verðbólgan ekki mjög hátt upp og líklega eigum við það olíuverðslækkuninni að þakka. Verðbólgan mældist 1,6 af hundraði í fyrra. Hún fer í 2,5% á þessu ári og tæp fjögur á næsta ári. Svo dregur smám saman úr henni og 2021 er því spáð að hún verði komin í 2,5%. Og við virðumst eiga fyrir neyslunni því laun hækkuðu um 7,2% í fyrra og í ár er gert ráð fyrir tíu komma fjögurra prósenta 10,4% launahækkunum að meðaltali og 6,8 á næsta ári. Svona háar tölur þekkjast varla annars staðar á byggðu bóli.

En þess ber geta að það eru kannski ekki bara íslenskir neytendur sem þrýsta neyslunni upp á við. Aukinn ferðamannastraumur hefur að sjálfsögðu áhrif á þessar tölur. Það þarf t.d. talsvert marga ísskápa í öll nýju hótelin.

En hvað segir fólk á förnum vegi?  Hefur það aukið neysluna?

-Nei, ég myndi nú ekki segja það. Ekki í mínu tilfelli. Ég er búinn að vera atvinnulaus í nokkur ár og öryrki. Þeir verða að spara og horfa í hverja krónu sem þeir eiga.

-Í raun og veru ekki.  Ég eyði reyndar allt og miklu, en ekki hlutfallslega meira en áður.

-Nei, hreint ekki. Hún hefur ekki aukist.

-Nei, ekki þannig. Kannski í mat vegna þess að fjölskyldan hefur stækkað.

- Þú hefur ekki keypt þér bíl eða farið til útlanda?

-Nei við löbbum bara.

-Nei.

-I´m using the same money.

-Já, það hefur allt hækkað í búðunum.

-Nei, það hefur ekki gert það.

-Nei, ekkert mikið meira.

-Ekki hjá mér, en ég sé það víða annars staðar í þjóðfélaginu.

-Kannski eitthvað. Ekki mikið, en aðeins.

-Nei. Ég brenndi mig svo mikið síðast. Þá lét ég glepjast af góðæristalinu. Ég er mjög passasamur núna en ég verð var við það í kringum mig að þetta svokallað 2007 er að koma aftur og ég bara stíg varlega til jarðar.

 

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi