Kanna hvort barnaverndaryfirvöld hafi brugðist

17.07.2017 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Barnaverndarstofa ætlar rannsaka sérstaklega hver viðbrögð barnaverndarnefndar voru í máli barns sem beitt var kynferðislegu ofbeldi af afa sínum. Þá ætlar Barnaverndarstofa að beina þeim tilmælum til embættis landlæknis að kanna hvort barnageðlæknir sem kom að málinu hafi látið vera að tilkynna um það.

Fjallað hefur verið um dóm sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í síðustu viku þar sem karlmaður var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barnabörnum sínum. Fram hefur komið að barnageðlæknir hafi ekki komið upplýsingum til barnaverndaryfirvalda þrátt fyrir að hann hafi vitað um langvarandi kynferðisbrot gegn einu barnanna.

Í bréfi sem Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sendi í dag til fréttastofu kemur fram að Barnaverndarstofa hafi ákveðið að nýta eftirlitsheimildir sínar til að kanna hvort barnaverndaryfirvöld hafi brugðist. Kannað verður sérstaklega hvað varð til þess að málinu var lokað hjá barnaverndarnefnd þegar fjölskyldan flutti milli sveitarfélaga og hvort það teljist athafnaleysi eða jafnvel vanræksla af hálfu nefndarinnar.

Kynferðistbrotin áttu sér stað frá árinu 1997 eða 1998 til ársins 2008. Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra kemur fram að barnageðlæknir hafi haft rökstuddan grun um alvarleg brot gegn einu barnanna. Í málinu lá fyrir læknabréf, sem er eitt af sönnunargögnum málsins, þar sem fram kemur að hann hafi búið yfir nákvæmum upplýsingum um langvarandi kynferðisofbeldi gegn barninu.

Í bréfi Braga Guðbrandssonar kemur fram að af lestri dómsins verði ekki séð að barnageðlæknirinn hafi komið þeim upplýsingum til barnaverndaryfirvalda svo sem skylt sé að lögum. Barnaverndarstofa mun beina þeim tilmælum til Embætti Landlæknis að hann láti kanna þann þátt málsins sérstaklega.

„Ástæða er til að halda því til haga að margt hefur breyst til batnaðar í barnaverndarmálum á Íslandi frá þeim tíma sem þessi hörmulegu brot gegn börnunum áttu sér stað," skrifar Bragi í bréfi sínu til fréttastofu.