Kalt og snjóþungt í febrúar

01.03.2016 - 15:47
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Kalt var í veðri í febrúar, sérstaklega inn til landsins. Þetta kemur fram í nýbirtu yfirliti Veðurstofunnar um tíðarfar í febrúar. Víða var snjóþungt, en vindar voru oftast hægir þannig að samgöngur gengu lengst af greiðlega.

Kaldara en í meðalári

Úrkoma var yfir meðallagi á Norðaustur- og Austurlandi, en nærri meðallagi eða lítillega undir því á Suðvestur- og Vesturlandi.  Meðalhiti í Reykjavík var hálfs stigs frost, sem er mínus 0,9 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en mínus 1,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Nýliðinn febrúar er sá kaldasti í Reykjavík síðan 2002 en þá var mun kaldara en nú. Meðalhiti á Akureyri var mínus 3,3 stig, mínus 1,9 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en mínus þremur stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti febrúar á Akureyri síðan árið 2009.

Tvö illviðri í mánuðinum

Mest frost í mánuðinum mældist 22,5 stig við Mývatn þann 26. febrúar.  Hæsti hiti mánaðarins mældist á Seyðisfirði þann 16. febrúar, 10 stig. Tvö umtalsverð illviðri gerði í febrúar, af austri þann 4. og 5. febrúar og af suðaustri og síðar suðvestri og vestri þann 15. til 16. febrúar.  Annars var hægviðri ríkjandi í febrúar.

Snjóþungt en snjórinn til friðs

Snjóþungt var víða um land. Veðurstofan segir að snjórinn hafi verið furðumikið til friðs vegna hægviðris. Síðustu daga mánaðarins mældist snjódýpt á Akureyri 111 cm og hefur ekki mælst meiri áður í febrúar og ekki meiri almennt síðan í mars 1995.

 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV