Kaldast í innsveitum

16.01.2016 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Spáð er austlægri átt í dag og að yfirleitt verði fremur hægur vindur. Bjart og fallegt verður vetrarveður fyrir norðan, dálítil væta suðaustantil á landinu, úrkomulítið suðvestan- og vestanlands, en léttir heldur til þegar líður á daginn.

Heldur verður hvassara syðst á landinu á morgun. Stöku él suðaustan- og austanlands, en bjart að mestu norðan- og vestanlands. Hiti um og yfir frostmarki sunnantil á landinu, en frost 0 til 8 stig fyrir norðan, kaldast í innsveitum. 

Það er hálka á Sandskeiði og á Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum. Hálka, hálkublettir eða snjór er víða á vegum á Suðurlandi. 

Hálka eða hálkublettir eru á Vesturlandi og  Vestfjörðum. Sums staðar er snjór, einkum á fjallvegum. Ófært er á Fróðárheiði. 

Það er hálka og sums staðar snjór á vegum í Norður- og Austurlandi.

Hálka eða hálkublettir er með austur- og suðausturströndinni. Hálka og éljagangur er frá Höfn að Öræfum. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV