Kalda stríðið skollið aftur á

13.02.2016 - 14:12
epaselect epa05157745 Russian Prime Minister Dmitry Medvedev speaks at the 52nd Security Conference in Munich, Germany, 13 February 2016. The 52nd Security Conference, where foreign policy and defence experts are meeting to discuss global crises continues
 Mynd: EPA  -  DPA
Dimitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, segir að nýtt kalt stríð sé hafið á milli Rússlands og Vesturveldanna. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að viðskiptaþvingunum gegn Rússum verði ekki aflétt fyrrr en þeir hafi staðið við sinn hluta samkomulags um vopnahlé í Úkraínu.

Vaxandi spenna í samskiptum Rússlands og Vesturveldanna er áberandi stef á alþjóðlegri ráðstefnu um öryggismál sem nú stendur yfir í München í Þýskalandi.

Bæði Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa í morgun sakað Rússa um að gera loftárásir á almenna borgara í Sýrlandi og skorað á þá að hætta þeim án tafar.

Dimitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, segir þrátt fyrir ítrekaðar ásakanir séu engar vísbendingar um að almennir borgarar hafi orðið fyrir rússneskum sprengjum.

Í ávarpi sem hann flutti í München í morgun sagði hann að spennan í samskiptum við Vesturlönd væri orðin slík að rétt væri að tala um að nýtt kaldastríðstímabil væri runnið upp. Rússar væru nánast á hverjum degi sakaðir um skelfilegar ógnanir í garð Atlantshafsbandalagsins, einstakra aðildarríkja, Bandaríkjanna eða annarra landa.

Hið sanna væri að NATO og Evrópusambandið hefðu rekið harða útþenslustefnu í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum sálugu eða voru á áhrifasvæði þeirra.

Það er ekki síst Úkraínudeilan sem er rót þessarar spennu. John Kerry sagði í morgun að ekki stæði til að hætta viðskiptaþvingunum gegn Rússum fyrr en þeir hefðu staðið við sinn hluta samkomulags um vopnahlé í Úkraínu, sem kennt er við hvítrússnesku borgina Minsk. Ísland er aðili að þeim, sem kunnugt er.

Mynd með færslu
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV