Kafbátasmiður í varðhald grunaður um manndráp

12.08.2017 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Búið er að lyfta kafbátnum, þar sem talið er að sænskri blaðakonu hafi verið ráðinn bani í fyrradag, frá hafsbotni. Verið er að flytja bátinn til Kaupmannahafnar þar sem hann verður rannsakaður í kvöld. Eigandi og hönnuður kafbátsins hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um manndráp af gáleysi.

Peter Madsen var í morgun leiddur fyrir dómara vegna gruns um að hann hafi banað Kim Wall um borð í kafbátnum Nautilus í fyrradag. Hann neitar sök og segist hafa sett Wall í land á Refshaleöen sem er gegnt Litlu hafmeyjunni í Kaupmannahöfn, um hálf ellefu á fimmtudagskvöld. Ekkert hefur spurst til Wall síðan hún fór um borð í kafbátinn og lögregla er að fara yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum.

Kafbáturinn sökk í Köge-flóa um hádegisbil í gær. Peter Madsen tókst að komast frá borði og var stuttu síðar handtekinn grunaður um að vera valdur að hvarfi Wall. Bátinum var lyft upp í dag og nú er verið að sigla með hann til Kaupmannahafnar. Búist er við að hann komi til hafnar á 9. tímanum í kvöld að íslenskum tíma og þá fyrst getur tæknideild lögreglunnar hafið rannsókn á bátnum.

Madsen var í dag úrskurðaður í 24ra daga gæsluvarðhald vegna gruns um manndráp af gáleysi. Dómari féllst á ósk saksóknara um lokað þinghald vegna hættu á að upplýsingar kæmu fram sem gætu skaðað rannsókn málsins og að fram kæmu upplýsingar sem gætu verið særandi fyrir ættingja Wall. Madsen óskaði eftir opnu þinghaldi.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV