Kæra leyfi til gullleitar í eigin landi

11.08.2017 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Guðný Ólafsdóttir
Orkustofnun hefur veitt fyrirtæki óhindraðan aðgang að rúmlega eitt þúsund ferkílómetra landsvæði á Norðurlandi til málmleitar. Landeigendur á svæðinu segja að ekkert samráð hafi verið haft við þá og ætla að kæra ákvörðunina. 

Orkustofnun veitti í júlí málmleitarfyrirtækinu Iceland Resources leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga, með sérstaka áherslu á gull og kopar. Leyfið tekur til rúmlega eitt þúsund ferkílómetra landsvæðis og er til fimm ára. 

Skylt að veita óhindraðan aðgang að eignarlandi

Samkvæmt leyfinu þarf fyrirtækið að afla sérstakra leyfa ef áformað er að leita innan fólksvanganna að Hrauni í Öxnadal og í Glerárdal og þá þarf að gæta sérstakrar varúðar í kringum svæði á náttúruminjaskrá. Þess utan er leyfið ansi víðtækt og ber landeigendum á svæðinu að veita fyrirtækinu óhindraðan aðgang að eignarlandi sínu og sæta öllum þeim takmörkunum og óþægindum sem leitinni getur fylgt. 

Ekkert samráð við íbúa

Jökull Bergmann, sem er í forsvari fyrir hóp landeigenda á svæðinu, segir að ekkert samráð hafi verið haft við íbúa, heldur hafi fólk frétt af málinu í fjölmiðlum. „Svo þegar farið er að skoða leyfið sem þessu fyrirtæki er veitt, þá er í raun og veru alveg stórmerkilegar greinar þar sem til dæmis þessu fyrirtæki er heimilt að vaða yfir öll lönd, nánast án þess að spyrja kóng né prest, keyra um og í raun hegða sér eins og þeim sýnist,“ segir Jökull.  

Ætla að kæra 

Þungt hljóð sé í landeigendum sem ætli ekki að sætta sig við áformin. „Það er í raun og veru bara komið af stað kæruferli þar sem okkar lögfræðingar munu fara yfir þetta og þetta verður bara kært, það er ekkert annað í stöðunni,“ segir Jökull. 

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV