Jónas veldur usla í Bandaríkjunum

23.01.2016 - 00:29
epa05119438 Snow plows attempt to clear Constitution Avenue near the National Gallery of Art as the first snow from a major blizzard hits Washington, DC, USA, 22 January 2016. Winter Storm Jonas is expected to dump more than two feet (61 centimeters) of
 Mynd: EPA
Stórhríðin Jónas er þegar farinn að hafa mikil áhrif á daglegt líf á austurströnd Bandaríkjanna. Yfir 120 þúsund heimili eru án rafmagns á svæðinu og meira en 7.000 flugferðum hefur verið aflýst.

Níu ríki hafa lýst yfir neyðarástandi. Yfirvöld biðla til íbúa að keyra ekki á milli staða að óþörfu. Níu banaslys í umferðinni má rekja beint til Jónasar. 

Neðanjarðarlestakerfi Washingtonborgar liggur niðri þar til í fyrsta lagi á sunnudag. Kafaldsbylurinn skellur á Washington og Baltimore í kvöld og er búist við allt að 70 sentimetra jafnföllnum snjó þegar hann hefur gengið niður seinni partinn á morgun. Yfirvöld Washingtonborgar báðu íbúa um að búa sig undir að komast ekki úr húsi í þrjá daga. Allar opinberar stofnanir verða lokaðar yfir helgina.

Veðurstofa Bandaríkjanna hefur gefið út viðvörun vegna stórhríðar í Fíladelfíu og New York í kvöld og í nótt. Um 30 milljónir búa á þeim svæðum þar sem veðurstofan hefur gefið út viðvörun vegna Jónasar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV