Jökullinn óbreyttur frá því í gær  • Prenta
  • Senda frétt

Vísindamenn sem eru á flugi yfir Vatnajökli um borð í flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, sjá engar breytingar á sigkötlunum við Bárðarbungu sem sáust fyrst þegar þeir flugu yfir jökulinn í síðdegis í gær.

Samhæfingarstöð Almannavarna er í sambandi við vísindamennina um borð í vélinni og fengu þessar upplýsingar hjá þeim fyrir stundu. 

Sigdældirnar eða sigkatlarnir sem sáust í gær í erfiðu skyggni liggja til suðausturs frá Bárðarbungu. Dældirnar eru á vatnaskilum Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna. Ekki hefur enn mælst breyting á rennsli árinnar og rennsli hennar er eðlilegt miðað við árstíma. Merki er um að vatnsborð í Grímsvötnum hafi hækkað síðustu daga en óljóst hvort það er tengt sigdældunum, segir í tilkynningu vísindamanna frá því klukkan hálftólf í gærkvöld. Sigdældir af því tagi sem sáust í gær myndast við eldgos eða jarðhitavirkni undir jökli. 

Búist er við að TF-SIF lendi í Reykjavík upp úr hádegi. 

Skjálftavirkni í Vatnajökli og norður af honum hefur verið stöðug í morgun. Jarðskjálfti af stærðinni 5 varð rúmlega átta í morgun um sjö kílómetra austnorðuraustur af Bárðarbungu. Hann var á þriggja kílómetra dýpi. 

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku