John Snorri nálgast toppinn á K2

11.07.2017 - 09:08
Mynd með færslu
 Mynd: Líf styrktarfélag
Fjallgöngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson komst í gær í þriðju búðir fjallsins K2. Hann stefnir að því að klífa tind fjallsins 20. júlí og verða fyrsti Íslendingurinn sem nær þeim áfanga.

„Það var góð tilfinning sem kom yfir mig í dag þar sem ég fann hvernig ég er að sigra fjallið smátt og smátt. Ég notaði tvo súrefniskúta á leið minni upp í búðir þrjú en þar stoppuðum í um tvo tíma og komum upp tjöldum og birgðum,“ er haft eftir John Snorra á Facebook-síðunni Lífsspor á K2. Hann segir gönguna upp vera nokkuð erfiða, klifur í klettum og ís. Hópurinn er kominn aftur í búðir 2 og gisti þar í nótt.

Í dag liggur leiðin aftur niður í grunnbúðir þar sem hópurinn hvílist og bíður eftir rétta veðrinu að fara á toppinn. Stefnan er tekin þangað 20. júlí.

K2 er á landamærum Pakistan og Kína og er næst hæsta fjall í heimi, á eftir Mount Everest og er 8.611 metra hátt. Fjallið er talið eitt erfiðasta fjall í heimi til að klífa. John lætur gott af sér leiða með göngunni og safnar áheitum fyrir Líf Styrktarfélag. Á vef leiðangursins segir að John Snorri sé fimm barna faðir sem hafi heimsótt Kvennadeild Landspítalans oftar en margir og notið þjónustunnar þar. Hann hafi því ákveðið að láta gamlan draum rætast og ganga á K2 og láta gott af sér leiða.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Kári Schram fylgir John Snorra hluta leiðarinnar og ætlar að gera heimildarmynd um leiðangurinn.

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir