Jóakim prins og Marie væntanleg til Íslands

09.01.2016 - 14:28
epa04340939 Danish Prince Joachim (C) and his wife Princess Marie (L) along with Danish Environment Minister Kirsten Brosboel (R) host a reception at the Schackenborg Castle in Moegeltoender, Denmark, 04 August 2014, where about 100 guests from home and
 Mynd: EPA  -  SCANPIX DENMARK
Jóakim Danaprins og Marie prinsessa eru væntanleg til landsins í opinbera heimsókn í lok mánaðarins. Prinsinn og prinsessan voru meðal gesta þegar haldið var upp á 100 ára afmæli Dansk-Islandsk Samfund sem verið hefur vettvangur verkefna í samvinnu Dana og Íslendinga í Kaupmannahöfn. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, flutti ávarp en meðal annarra gesta voru Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, og Uffe Elleman Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Greint er frá heimsókn prinsins og prinsessunnar til Íslands á vef dönsku konungsfjölskyldunnar. Þau koma hingað þegar haldið verður upp á 100 ára afmæli Dansk-Islands Samfund hér á landi.

Í umfjöllun danska Billed Bladet kemur fram að veislan hafi farið fram á Nordatlantens-bryggjunni. Prinsinn og prinsessan voru síðust til að mæta - Marie var klædd í náttsvartan kjól, Jóakim í smóking.

Á boðstólunum voru kræsingar frá Íslandi og gestum stóð til boða að stíga léttan dans undir lok kvöldsins. Billed Bladet segir að þar hafi Jóakim verið á heimavelli - hann þótti lunkinn dansari á menntaskólaárum sínum.

Töluvert fjölmiðlafár varð þegar upp komst að blaðamenn Se og Hør væru fóðraðir á upplýsingum um kortaviðskipti nafntogaðs fólks í Danmörku. Meðal gagna í málinu var sms með upplýsingum um hversu miklum peningum Marie prinsessa hafði eytt í fríhöfninni í Keflavík þegar þau komu hingað fyrir tæpum fjórum árum.

Jóakim er yngri sonur Margrétar Þórhildar og Henriks prins. Margrét kom hingað til Íslands í opinber heimsókn fyrir tveimur árum í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar handritasafnara. Friðrik krónprins, og Mary prinsessa, komu hingað í opinbera heimsókn fyrir átta árum í boði forseta Íslands. 

 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV