Jeb Bush nær athygli á Twitter

epa05163424 US Republican presidential candidate and former Florida Governor, Jeb Bush (C) participates in a campaign event with his brother, former US President George W. Bush (R) and former First Lady Laura Bush (L) in North Charleston, South Carolina,
 Mynd: EPA
Færsla Jeb Bush á Twitter í gærkvöld olli miklu fjaðrafoki. Færslan inniheldur mynd af byssu og nafn Bush er grafið í hana. Yfir myndinni stendur eitt orð: Ameríka. Færslan vakti umsvifalaust mikla athygli, bæði jákvæða og neikvæða fyrir Bush.

Um 17 þúsund hafa bæði deilt færslunni, eða retweet-að henni, og sýnt ánægju sína með hana með því að líka við hana. Fjölmargir sendu annars konar myndir undir sama texta, til dæmis mynd af glímukappanum Hulk Hogan leika á gítar og af fyrrum forsetanum Ronald Reagan á baki risaeðlu. Aðrir sendu myndir af fórnarlömbum fjöldaskotárása í Bandaríkjunum í gegnum árin.

Myndina tók Bush í heimsókn sinni hjá FN skotvopnaframleiðandanum í Columbia í Suður-Karolínuríki. Þar er hann staddur ásamt öðrum frambjóðendum repúblikanaflokksins til þess að næla sér í atkvæði fyrir forkosningarnar á laugardag. Miðað við kannanir er Bush í fjórða sæti með um tíu prósenta fylgi. Færslan með myndinni er mun vinsælli en aðrar færslur Bush, sem flestum hefur verið deilt um hundrað til tvö hundruð sinnum og nokkur hundruð hafa látið sér líka við þær.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV