Járntjaldið rís í Evrópu

13.03.2016 - 20:08
epa05193704 Macedonian soldiers patrol between the fences at the border line between Greece and Macedonia, near Gevgelija, The Former Yugoslav Republic of Macedonia, 04 March 2016. Migration restrictions along the so-called Balkan route, the main corridor
 Mynd: EPA
Þjóðernissinnaðir flokkar og orðræða andsnúin innflytjendum virðist eiga meira upp á pallborðið í Evrópu eftir að flóttamannaneyðin kom til álfunnar. Stjórnmálafræðingur segir að járntjald rísi að nýju í Evrópu, en í þetta sinn í bókstaflegri merkingu.

Þjóðernissinnar hafa sótt mjög á í Austur- og Mið-Evrópu. Slíkir flokkar eru við völd í Ungverjalandi, Slóvakíu, Tékklandi og Póllandi. Ríkisstjórnir þessara landa eru mjög andsnúnar mótttöku flóttafólks og halda á lofti orðræðu þess efnis.  „Við erum að horfa upp á ákveðið bakslag frá þessari frjálslyndisþróun sem við höfum séð í þessum heimshluta frá falli Berlínarmúrsins og endalokum Kalda stríðsins og afturhvarf til fasískari stjórnarhátta. Hugmyndin um aukna hörku í stjórnmálum, hugmyndin um að draga einhvers konar varnarlínu, jafnvel múr, í kringum þjóðríkin, og mjög skarpa skilgreiningu á þeim sem að tilheyra þjóðinni og hinum sem ber að útiloka,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor.

Hægri og vinstri þjóðernisflokkar

Hægri flokkurinn Lög og réttur fékk hreinan meirihluta í þingkosningum í Póllandi í fyrra. Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir lagabreytingar sem þykja miða í einræðisátt. Meðal fyrstu verka hennar voru lög til að breyta stjórn ríkissjónvarpsins og til að auka njósnaheimildir. Þá skipaði stjórnin nýja dómara við stjórnlagadómstólinn og setti lög sem takmarka áhrif dómsins.

Smer, flokkur Ficos forsætisráðherra í Slóvakíu, er vinstrisinnaður þjóðernisflokkur. Orðræðan í Slóvakíu er andsnúin innflytjendum og hælisleitendum þrátt fyrir að Slóvakar hafi ekki tekið við nema fimmtíu flóttamönnum.  Í nýafstöðnum kosningum í landinu náði hægriöfgaflokkurinn Okkar Slóvakía óvænt góðu gengi og fær 25 þingmenn af 150. „Ástandið er mjög alvarlegt. Í fyrsta sinn erum við að sjá „fasista“ á þingi,“ segir Igor Matovic, leiðtogi OLaNO íhaldsflokksins í Slóvakíu.

Stjórnarflokkurinn Fidesz er íhaldsflokkur undir forystu Viktors Orban, og hefur verið við völd undanfarin ár í Ungverjalandi. Orban rekur harða innflytjendastefnu og hefur hafnað samþykktum Evrópusambandsins um jafnari dreifingu hælisleitenda um álfuna. Ungverjar reistu í fyrrahaust víggirðingu við landamæri sín að sunnanverðu til að stöðva straum flóttamanna og fleiri lönd fylgdu á eftir.

epa05192357 Refugee girl stay behind the fence and wait permission to cross the border between Greece and Macedonia, near Gevgelia, The Former Yugoslav Republic of Macedonia, 03 March 2016. Migration restrictions along the so-called Balkan route, the main
 Mynd: EPA
Flóttamenn við víggirðinguna að landamærum Makedóníu

„Evrópa hefur verið klofin og skipt álfa eins og var í Kalda stríðinu með járntjaldinu svokallaða - og það var nú bara myndlíking. En þetta járntjald er einfaldlega farið að rísa í físísku formi um álfuna. Þannig að járntjaldið í Evrópu er komið aftur, en ekki sem myndlíking heldur sem raunverulegur múr sem skilur fólk að og maður myndi halda að öllu hugsandi fólki ætti að þykja það frekar ískyggilegt,“ segir Eiríkur.

Stjórnmálamenn spila á óttann

Eiríkur segir ómögulegt að segja til um hvort uppgangur þjóðernispopúlisma eigi eftir að aukast enn frekar og breiðast um álfuna. „Þetta er á einhvern hátt viðbragð við krísu í aðstæðum þar sem fólk er óttaslegið um afkomu sína - og svo það sem mestu skiptir - að það séu óprúttnir stjórnmálamenn sem eru tilbúnir til þess að misnota slíkt ástand til að ala ótta og stilla sjálfum sér upp sem lausn við þeirri ímynduðu ógn sem þeir hafa sjálfir búið til í hugum fólks,“ segir Eiríkur.