Járnstykki bundið við búk Kim Wall

23.08.2017 - 08:05
Copenhagen police homicide chief Jens Moeller speaks in a press conference in Copenhagen Wednesday, Aug. 23, 2017.  Danish police said Wednesday that a DNA test from a headless torso found in the Baltic Sea matches with missing Swedish journalist Kim Wall
 Mynd: AP Images  -  RÚV
Járnstykki var bundið við búk sænsku blaðakonunnar Kim Wall og gerðar höfðu verið ráðstafanir á honum til að koma í veg fyrir að hann flyti upp á yfirborðið. Þetta var meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í Kaupmannahöfn snemma í morgun þar sem hún greindi frá nýjustu upplýsingum í tengslum við rannsókn á máli Wall. Blóð úr henni fannst í kafbátnum.

Kaupmannahafnarlögreglan staðfesti í morgun að líkamsleifarnar, sem fundust í sjónum undan Amagerströnd, væru Wall.  

Unnið var að því í gær og nótt að bera kennsl á líkamsleifarnar, en höfuð og útlimir höfðu verið fjarlægð af líkinu, af mannavöldum og að yfirlögðu ráði.

Peter Madsen, danski uppfinninga- og auðmaðurinn, situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa ráðið Wall bana. Lögmaður hans sagði við DR í gær að líkfundurinn breytti engu um frásögn skjólstæðings síns.  Wall hefði látist af slysförum og hann varpað líki hennar fyrir borð.

Jens Møller, yfirmaður hjá dönsku lögreglunni, sagði á blaðamannafundinum í morgun að þrátt fyrir líkfundinn væri enn óskað eftir aðstoð almennnings og þeirra sem tengdust bæði Wall og Peters Madsen. „Og við viljum gjarnan finna aðrar líkamsleifar Walls," sagði Møller við.  „Þetta mál er ekki leyst,“ bætti hann við.

In this Tuesday, Aug. 22, 2017 photo, a private submarine sits on a pier in Copenhagen harbor, Denmark. Danish police say a DNA test from a headless torso found in the Baltic Sea matches with missing Swedish journalist Kim Wall, who is believed to have
 Mynd: AP Images  -  RÚV
Kafbátur Peters Madsen

Møller sagði að lögreglan hefði fundið blóð úr Wall í kafbátnum en hún væri enn að bíða eftir frekari niðurstöðum úr rannsóknum. Møller upplýsti jafnframt að þeir vissu ekki hvernig Wall hefði dáið. „Það er mjög mikið eftir,“ sagði Møller. „Nú höfum við þetta blóðsýni og við þurfum að halda rannsókn okkar áfram. Við þurfum að yfirheyra mikið af fólki og höldum áfram að leita að líkamshlutum Walls.“

Møller sagði það geta reynst erfitt að finna DNA-sýni á líkamsleifum. „En það er verið að rannsaka þær og niðurstöðurnar úr þeim rannsóknum liggja ekki fyrir.“

Lögregla, strandgæsla og björgunarsveitir munu halda áfram víðtækri leit að líkamshlutum Wall og Trine Maria Ilsøe, sérfræðingur hjá danska ríkisútvarpinu, segir að leitinni verði beint að þeirri siglingaleið sem kafbátur Madsen sigldi.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA  -  TT
Sænska blaðakonan Kim Wall

Mál Kim Wall og Peters Madsens hefur vakið heimsathygli. Þann 10. ágúst hélt kafbáturinn Nautilus úr höfn í Kaupmannahöfn en um borð voru Peter Madsen, eigandi og hönnuður kafbátarins, og Kim Wall, sænskur blaðamaður sem ætlaði að fjalla um kafbátinn. Á miðnætti sást til bátsins á siglingu. 11. ágúst, daginn eftir, sást einnig til bátsins en aðeins hálftíma síðar sökk hann.  

Kærasti Wall tilkynnti til lögreglu að hún hefði ekki skilað sér heim úr ferðinni og leit hófst. Stuttu síðar var kafbátnum viljandi sökkt á hafsbotn, að sögn lögreglu.

Madsen hefur verið margsaga um afdrif Walls og hefur setið í gæsluvarðhaldi nánast síðan hann kom í land. Fyrst sagði hann Wall hafa gengið óskaddaða frá borði áður en báturinn sökk, síðan sagði hann hana hafa látist af slysförum og hann varpað líki hennar fyrir borð.