Jarðskjálfti 3,5 í Kötlu

05.01.2017 - 08:41
Mýrdalsjökull Katla
Jarðskjálftamælar Veðurstofu Íslands í Mýrdalsjökli.  Mynd: Karl Sigtryggsson  -  RÚV/Landinn
Jarðskjálfti af stærðinni þrír komma fimm varð í morgun vestarlega í Kötluöskjunni undir Mýrdalsjökli. Skjálftinn varð tæpa fjóra kílómetra austsuðaustur af Goðabungu þegar klukkan var níu mínútur yfir sjö. Nokkrir minni skjálftar urðu á undan og eftir. Gunnar Guðmundsson, hjá Veðurstofu Íslands, segir að allmikil virkni hafi verið í Kötluöskjunni frá því í haust, þótt virknin hafi minnkað nokkuð síðustu vikur. Yfirleitt sé mest virkni í Kötluöskjunni á sumrin, en minni á veturna.

Enginn órói fylgir þó þessum skjálftum og svo var heldur ekki í morgun.

Óvissustig var í gildi vegna Kötlu í lok september og byrjun október, vegna öflugrar jarðskjálftahrinu þar. Vísindaráð almannavarna fundaði meðal annars vegna hrinunnar sem var stærsta einstaka hrina í Kötluöskjunni í áratugi. Þriðja október virtist þeirri skjálftahrinu að mestu lokið.