Ítalir lögfesta bólusetningarskyldu barna

20.05.2017 - 04:16
epa05106421 A child is given an oral polio vaccination by a non-government organization (NGO) worker in Srinagar, Indian Kashmir, 17 January 2016. With India being polio-free for five years now, the government has plans to reduce the intensity of the oral
 Mynd: EPA
Stjórnvöld á Ítalíu hafa lögfest skyldubólusetningu barna gegn tólf sjúkdómum, þar á meðal mislingum, hettusótt og lömunarveiki. Foreldrar sem ekki láta bólusetja börn sín mega búast við sektum. Paolo Gentolini, forsætisráðherra Ítalíu, kynnti löggjöfina í gær. Samkvæmt henni er skylda að bólusetja börn gegn heilahimnubólgu B og C, stífkrampa, kíghósta, hlaupabólu, rauðum hundum, barnaveiki, lifrarbólgu B og dreyrasýki, auk fyrrgreindra þriggja sjúkdóma.

 

Óbólusett börn undir sex ára aldri fá ekki inni á vöggustofum, leik- og forskólum og foreldrar óbólusettra barna á aldrinum sex til sextán ára eiga háar sektir yfir höfði sér. Tilefni lagasetningarinnar er mislingafaraldur sem braust út á Ítalíu í ársbyrjun og það sem stjórnvöld kalla afleiðingar falskra frétta um skaðsemi bólusetninga.

Fleiri mislingasmit rakin til falskra frétta og bábilja

2.395 mislingasmit hafa verið staðfest það sem af er þessu ári, samanborið við 860 allt árið í fyrra. 89% þeirra sem sýkst hafa á þessu ári eru óbólusett börn. Beatrice Lorenzin, heilbrigðisráðherra Ítalíu, hefur barist fyrir skyldubólusetningunni mánuðum saman.

Forsætisráðherrann Gentolini segir að rekja megi fjölgun þeirra sem víkja sér undan því að bólusetja börn sín til útbreiðslu falskra frétta af meintri skaðsemi bólusetninga, frétta, sem vísindamenn hafi marghrakið með óyggjandi hætti. Þau Lorenzin saka talsmenn Fimmstjörnu-hreyfingarinnar ítölsku um villandi, óábyrgan og beinlínis skaðlegan áróður gegn bólusetningum, áróður, sem hæglega geti kostað mannslíf.

Talsmenn Fimmstjörnuhreyfingarinnar, með Beppo Grillo í fylkingarbrjósti, halda hins vegar enn fast við bábiljur á borð við þá, að samband sé á milli bólusetninga og einhverfu. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV