Ítalía: Samkynja hjónabönd samþykkt

26.02.2016 - 01:29
epa05178770 LGBT activists protest for civil rights and the new law about the Civil Union and the stepchild adoption during a rally at Cinque Lune square in Rome,  Italy, 24 February 2016. Italy's Constitutional Court on 24 February ruled as &#039
Baráttufundir fyrir réttindum hinseginfólks hafa verið tíðir og fjölmennir á Ítalíu undanfarin misseri.  Mynd: EPA  -  ANSA
Öldungadeild Ítalska þingsins samþykkti síðdegis lagafrumvarp sem heimilar hjónabönd fólks af sama kyni. Hinsegin fólk fær þó ekki að ættleiða börn. Talsmenn réttindasamtaka saka þingmenn um svik. Neðri deild þingsins þarf að samþykkja frumvarpið til að það verði að lögum.

Ítalía er eina landið í vesturhluta Evrópu sem hvorki viðurkennir staðfesta samvist né hjónabönd fólks af sama kyni. Þá geta samkynhneigð pör ekki ættleitt börn. Fjölmenn mótmæli hafa verið haldin víða á Ítalíu síðustu misseri. Mótmælendur hafa margir hverjir haldið á vekjaraklukkum til marks um að nú sé kominn tími til að Ítalir opni augun fyrir réttindum samkynhneigðra. Þá var víða mótmælt um helgina til að þrýsta á ítalska þingið að setja lög í landinu sem tryggi að samkynhneigðir njóti sömu réttinda og aðrir.

Frumvarpið var samþykkt í ítalska þinginu undir kvöld með 173 atkvæðum gegn 71 eftir að ákvæði um að samkynhneigðir gætu ættleitt börn var tekin út. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að verði frumvarpið samþykkt í neðri deildinni verði það sögulegt.

Talsmenn réttindasamtaka hinsegin fólks eru mjög ósáttir við að hinsegin fólk geti ekki ættleitt. Með því að taka þann hluta úr frumvarpinu hafi þingið svikið ítölsku þjóðina. Í júlí í fyrra komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að tregða Ítala til að viðurkenna samkynja hjónabönd væri mannréttindabrot. Það hefur sett mikla pressu á Renzi og ríkisstjórn hans að koma frumvarpinu í gegnum þingið. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV