Ísrael fordæmir kjarnorkusamning við Íran

17.01.2016 - 01:26
epa05102187 Israeli Prime Minister and Foreign Minister Benjamin Netanyahu addresses the Foreign Press Association (FPA) in a new year address in Jerusalem, Israel, 14 January 2016. Netanyahu spoke on a wide range of subjects but concentrated on security
 Mynd: EPA
Þótt kjarnorkusamningi Írans og stórveldanna sé víðast hvar fagnað sem tímamótaáfanga sem stuðli að auknu jafnvægi og friði í Austurlöndum nær er það langt í frá algilt. Repúblikanar á Bandaríkjaþingi fordæma samninginn, Sádi-Arabar og bandamenn þeirra eru afar tortryggnir en hafa farið varlega í fordæmingar til að styggja ekki Bandaríkjamenn á meðan Ísraelar hika ekki við að fordæma hann opinberlega.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir Írana enn stefna að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum, hvað sem öllum samningum og álitsgerðum alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar líði. Írönsk stjórnvöld vinni enn að því, leynt og ljóst, að grafa undan stöðugleika í miðausturlöndum og ýti undir hryðjuverk um leið og þau brjóti flesta þá alþjóðasamninga sem þau hafi þó undirritað.

Netanjahú heitir því að Ísraelar muni fylgjast grannt með því að Íranar fari að skilmálum kjarnorkusamningsins í einu og öllu. Hvetur hann stórveldin og Alþjóða kjarnorkumálastofnunina til að gera slíkt hið sama og bregðast hart við, ef Íranar víki hið minnsta frá ákvæðum samningsins, til að koma í veg fyrir að þeir haldi áfram að þróa kjarnavopn í laumi. „Ef ekki er brugðist rétt við hverju einasta broti munu Íranar átta sig á að þeir geti haldið áfram að þróa kjarnavopn, kynda undir ófriði á svæðinu og stuðla að hryðjuverkum,“ segir í yfirlýsingu frá ísraelska forsætisráðherranum.