Íslenskt vegabréf ekki „valid“

Flokkar: Innlent, Mannlíf
Lea Gestsdóttir lenti í ævintýrum í Svasílandi.


  • Prenta
  • Senda frétt

Lea Gestsdóttir leiðsögumaður komst að því í vikunni að Ísland er líklega ekki „stórasta“ land í heimi.

Lea er búin að vera á ferðalagi með vinum sínum í Suður-Afríku undanfarna daga en þau ákváðu í vikunni að skreppa til Svasílands, sjálfstæðs konungsríkis sem er staðsett í norðausturhluta Suður-Afríku. 

„Þegar við fórum yfir landamærin lenti ég í nokkru veseni. Vinir mínir frá Frakklandi og Hollandi komust vandræðalaust yfir, en ég varð að bíða. Starfsmenn landamæraeftirlitsins botnuðu ekkert í vegabréfinu mínu og sögðu mér að það væri ekki „valid.“ Að lokum þurfti ég að borga fyrir vegabréfsáritun og sagt að mæta daginn eftir í útlendingaeftirlitið.“

 

Trúðu ekki að Ísland væri til

Lea mætti daginn eftir í útlendingaeftirlitið þar sem hún þurfti að bíða í dágóða stund. Henni var síðan vísað á skrifstofu þar sem fulltrúar eftirlitsins reyndu að ráða í vegabréfið hennar. 

„Þetta var eins og í kvikmynd. Ég reyndi að benda þeim á Ísland á korti en við áttum í mestu erfiðleikum með að skilja hvort annað. Þau virtust ekki trúa því að landið væri til yfir höfuð. Að lokum komust þau á þá niðurstöðu að ég þyrfti að borga fyrir aðra vegabréfsáritun til að komast til baka til Suður-Afríku.“

Lea segist vera viss um að hún muni brosa af þessu öllu saman innan skamms. 

„Þetta var ekkert alvarlegt. Bara Ísland að uppgötva Svasíland og Svasíland að uppgötva Ísland.“

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku