Íslenskt rokk og Eurovision á Eurosonic

11.02.2016 - 13:24
Mynd með færslu
 Mynd: Eurosonic
Í Konsert kvöldsins förum við á Eurosonic Festival í Groningen í Hollandi og heyrum þar í einni íslensku rokksveitinni Kontinuum og svo Hollensku hljómsveitinni The Common Linnets sem lenti í öðru sæti í Eurovison árið 2014.

Eurosonic er tónlistarhátíð sem gengur út á að kynna það sem er nýtt og ferskt og spennandi í Evrópskri tónlist í upphafi árs fyrir músíkbransanum í Evrópu. Þangað kemur gríðarlegur fjöldi af fólki sem á einn eða annan hátt starfar við "bransann" - umboðsmenn tónlistarmanna, fulltrúar tónlistarhátíða, útvarpsmenn og aðrir fjölmiðlungar, tónleikabókarar og svo auðvitað annað áhugafólk um tónlist.

Á hátíðinni spila árlega næstum 300 hljómsveitir sem eiga það sameiginlegt að þær þykja frambærilegar á sínum heimaslóðum og tilbúnar í að láta að sér kveða utan landa-mæra eða landsteina. Örfáar sveitir frá hverju landi fá tækifæri ár hvert til að koma og spila á hátíðinni og hugsunin er sú að tækifærin til að spila verði eftir Eurosonic fleiri og stærri um alla Evrópu og allan heim.

Það er spilað á rúmlega 40 stöðum og sviðum. Það er spilað á kaffihúsum, klúbbum, leikhúsum, rokkbúllum, skólum og meira að segja undir berum himi á stóru útisviði á bæjartorginu í Groningen.

Það var einmitt þar sem The Common Linnets spilaði á Eurosonic í ár, en Kontinuum spilaði á Vera, gömlum rokkklúbbi í miðbænum, en þar hafa t.d. spilað sveitir eins og Dikta, Mínus, Sólstafir og Nirvana.

Konsert er á dagskrá Rásar 2 á fimmtudagskvöldum kl. 22.05

Umsjón: Ólafur Páll Gunnarsson
olipalli@ruv.is