Íslenska Netflix 1/6 af því bandaríska

26.02.2016 - 15:03
Afþreying · Erlent · Innlent · Netflix
epa05090583 (FILE) A file picture dated 15 September 214 of the French Netflix webpage displayed on a computer screen in Paris, France. Video streamer Netflix on 06 January 2016 went live around the world, adding 130 new countries to its service and
 Mynd: EPA
Streymiveitan Netflix opnaði dyr sínar fyrir Íslendingum snemma á þessu ári. Netflix býður nú upp á þjónustu sína um nær allan heim, en þó með undantekningum. Þjónustan er til að mynda ekki formlega í boði í Kína, Norður-Kóreu, Sýrlandi og á Krímskaga. Úrval titla sem boðið er upp á er mismunandi eftir landsvæðum vegna réttindamála. Þegar að er gáð er íslenska Netflix ekki upp á marga fiska, þó má ætla að titlum fari fjölgandi með tíð og tíma.
Vefsíðan exstreamist.com tók saman gögn um fjölda titla sem í boði eru eftir landsvæðum. Ísland er í 106. sæti á listanum, af 184 löndum. Ísland situr þar á milli Kirgistan og Gíneu, með 180 sjónvarsþáttaraðir og 777 kvikmyndir.
 
Úrvalið á Íslandi er heldur lítilfjörlegt í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir, þar sem þjónustan hefur verið í boði síðan 2012:

Ekki batnar það þegar tölurnar eru bornar saman við þjóðir sem bjóða upp á mesta úrvalið. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að fjöldi titla sem hægt er að streyma á Netflix er mestur í Bandaríkjunum. Hér eru 10 bestu „Netflix-löndin“:

Marokkó vermir neðsta sæti listans, með einungis 157 titla í boði. Hér eru þau 10 lönd sem bjóða upp á minnsta úrvalið:

Auratal og svæðatakmarkanir

Kjörin eru hagstæðust fyrir bandaríska áskrifendur, þar sem mánaðaráskrift kostar 8,99 dollara, um 1.155 kr., fyrir 5.750 titla. Íslenskir áskrifendur fá aftur á móti lítið fyrir sinn snúð – 957 titla fyrir 9,99 evrur, eða um 1.460 krónur íslenskar. Danir borga mest Norðurlandaþjóða fyrir áskriftina, 79 kr. danskar, eða um 1.499 krónur íslenskar. Dýrust er áskriftin í Sviss, 12,9 svissneskir frankar, um 1.679 kr. íslenskar. Miðað er við grunnáskrift Netflix, en í boði er lægra mánaðargjald á kostnað mynd- og hljóðgæða.
 
Svæðatakmarkanir Netflix hafa getið af sér hinar ýmsu þjónustur sem bjóða upp á hjáleiðir, flestar gegn gjaldi. Stór fjöldi áskrifenda hefur nýtt sér þessar þjónustur til að nálgast besta úrvalið. Netflix hefur lengst af umborið slík vélræði, en nú eru blikur á lofti. Skömmu eftir að Netflix stækkaði þjónustusvæði sitt, í byrjun þessa árs, var birt tilkynning um að fyrirtækið hyggðist koma í veg fyrir að hægt væri að blekkja kerfin með þessum hætti. Dæmi eru um að notendum hafi verið neitað um innskráningu vegna þessa. Bent hefur verið á að slíkar aðgerðir eru í hæsta máta vafasamar, með netöryggissjónarmið í huga.