Íslensk Marple í blokk á Melunum

Bókmenntir
 · 
Morgunvaktin
 · 
Mannlíf

Íslensk Marple í blokk á Melunum

Bókmenntir
 · 
Morgunvaktin
 · 
Mannlíf
Mynd með færslu
08.01.2016 - 09:33.Óðinn Jónsson.Morgunvaktin
Jónína Leósdóttir hefur sent frá sér glæpasöguna "Konan í blokkinni" og vonast til að fleiri sögur um hina forvitnu Eddu í blokkinni við Birkimel fylgi í kjölfarið. Jónína hefur gaman af svona forvitnum og hressum konum sem láta aldur ekki stöðvað sig í að gera eitthvað áhugavert, en sjálf er hún vanari því að þurfa að umbera forvitni í sínu einkalífi. Jónína talaði á Morgunvaktinni á Rás 1 um nýju bókina sína og lífið með Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra.

Jónína Leósdóttir hefur ritað fjölda bóka en starfaði áður sem blaðamaður. "Konan í blokkinni" er hennar fyrsta glæpasaga. Fleiri bækur gætu verið á leiðinni um ævintýri sem sögupersónan, Edda, kona á sjötugsaldri, ratar í vegna forvitni sinnar um menn og málefni. Jónína líkir henni við nútímaútgáfu af Miss Marple, sögupersónuna sem Agatha Christie skapaði. Tónninn er gamansamur í þessari nýju bók en söguþráðurinn spennandi. Húmorinn er hennar lífselexír - bæði í gleði og sorgum. "Ég á erfitt með að vera alvarleg", segir Jónína. En hún hefur að undanförnu verið í önnum. Auk skrifanna hefur hún ferðast með maka sínum, Jóhönnu Sigurðardóttur, vítt og breitt um heiminn. Hún segir að Jóhanna sé eftirsótt til að tala á fundum og ráðstefnum sem fyrsti þjóðarleiðtoginn sem opinberlega var í sambúð með manneskju af sama kyni. Segja má að Jóhanna sé orðin átrúnaðargoð í alþjóðlega LGBT-samfélaginu. Þær Jónína og Jóhanna hafa lifað miklar breytingar á viðhorfum fólks, en baráttunni er ekki lokið. Ein sögupersónan í nýju bókinni segir: "Fólk heldur að fordómar tilheyri liðinni tíð. Lífið sé ein allsherjar gleðiganga, sjö hinsegin dagar í hverri viku og það sé eins og að drekka vatn að koma út úr skápnum". En það er ekkert verið að predika í þessari nýju bók. Þar eru alls konar persónur með ólíkar kenndir og hugmyndir, fólk sem lifir dálítið flóknu nútímalífi. Og það er spenna í loftinu á Melunum.