Íslensk kona í gæsluvarðhaldi í Kanada

12.02.2016 - 10:24
Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Íslensk kona er í gæsluvarðhaldi í Kanada í tengslum við mál sem teygir anga sína til Mexíkó og Kanada. Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn staðfestir þetta.

Greint er frá málinu á Vísi. Þar kemur fram að konan var gripin með verulegt magn fíkniefna og bíði nú dóms. Konan bauð þremur islenskum konum með sér til Cancun í nóvember í fyrra og virðist sem til hafi staðið að gera þær að burðardýrum fíkniefna án þeirra vitundar. Þegar konurnar fór að gruna að maðkur væri í mysunni flúðu þær til Kanada og þaðan til Íslands, en sú sem nú er í gæsluvarðhaldi hafi komið síðar en farið aftur fljótlega til Kanada og þá verið gripin með fíkniefni. 

Friðrik Smári segir að lögreglan hér hafi unnið að málinu í samstarfi við kanadísku lögregluna en að það sé nú alfarið á forræði kanadísku lögreglunnar. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV