Íslendingur sló danska löggu með billiardkúlu

17.02.2017 - 19:01
Lögregla í Danmörku
 Mynd: óþekkt
31 árs gamall Íslendingur var á fimmtudag sakfelldur í undirrétti í Næstved í Danmörku fyrir að slá danskan lögreglumenn í höfuðið með billiardkúlu í lok nóvember. Lögregluþjónninn hefur verið frá vinnu eftir árásina en læknar telja að hann muni ná sér að mestu leyti.

Þetta kemur fram á vef Sjællendske í dag.  Þar segir að maðurinn hafi brugðist ókvæða við þegar lögregluþjónninn vildi leita á honum. Hann hafi dregið heimagert vopn -sokk með billiardkúlu í - og slegið lögreglumanninn í höfuðið. 

Á vef Sjællendske kemur fram að lögreglumaðurinn hafi fengið heilahristing. „Ég er að reyna að minnka notkun á verkjalyfjum en ég get ekki verið án þeirra. Ég hef ekki reynt neitt líkamlega á mig því þá fæ ég mikinn höfuðverk,“ sagði lögreglumaðurinn fyrir dómi en hann hefur verið frá vinnu vegna árásarinnar.

Dómurinn á enn eftir ákveða refsingu yfir Íslendingnum þar sem beðið er eftir mati á því hvort hann sé sakhæfur.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV