Íslendingur í Djakarta: við erum ekki hrædd

15.01.2016 - 09:22
epa05100971 An injured Indonesian policeman is evacuate from the site of a bomb blast in front of a shopping mall in Jakarta, Indonesia, 14 January 2016. Explosions near a shopping centre in the Indonesian capital Jakarta killed at least three people on
 Mynd: EPA
Íslendingur sem býr í Djakarta, Árni Þór Jónsson, segir fólk bera sig vel þrátt fyrir hryðjuverkaárasirnar í gær. Fólk í Indónesíu sýni samhug með yfirlýsingum um að það verði ekki kúgað með ótta. Það fór hrollur um Árna þegar hann heyrði af árásunum sem fóru fram þar sem hann var áður með skrifstofu.

„Hashtag sem menn eru að nota hérna er „Við erum ekki hrædd“. Menn bara steyta hnefa og halda áfram því það er nákvæmlega engin virðing borin fyrir þessum öfgasamtökum hérna,“ segir Árni og vísar þar í merkið #WeAreNotAfraid sem fólk deilir á samfélagsmiðlum. „Við eru bara brött,“ bætir Árni við.

Sjö manns létust í árásunum í miðborg Djakarta og þó nokkur fjöldi særðist. Þar af voru fimm hryðjuverkamenn og tveir óbreyttir borgarar. Alls sprungu sex sprengjur við Sarinah-verslunarmiðstöðina, sem er nærri forsetahöllinni og skrifstofum Sameinuðu þjóðanna í borginni. Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum.

Árásirnar fóru fram skammt frá þar sem Árni var með skrifstofu fyrir nokkrum árum. „Skyline-byggingin stendur þarna við hliðina á Sarinah, á hinu horninu á þessum gatnamótum þar sem þetta allt fór fram. Þar var ég með skrifstofu fyrir um sex til sjö árum og einn af okkar viðskiptavinum er með skrifstofu þarna,“ segir Árni sem starfar fyrir íslenska fyrirtækið Jarðboranir. Árni hefur ferðast til og starfað í Jakarta með hléum í 20 ár. Árni var einnig þar ár í senn í mennta- og háskóla.

„Á fyrstu hæðinni eru Starbucks, Pizza Hut og fleiri staðir. Þetta er þokkalega fjölfarið svæði og skrifstofur og lúxushótel þarna í kring. Maður þekkir svæðið vel og hefur oft verið þarna.“

Árni segir að mikið hafi verið fjallað um málið í þarlendum fjölmiðlum. Þá sé einnig rætt um hvernig hafi tekist til þar sem meirihluti þeirra sem létust hafi verið hryðjuverkamennirnir sjálfir. Til að mynda sýni myndband tvo þeirra sprengja sig í loftu upp, fyrir slysni að því er virðist.

„Svona almennt í samfélaginu heldur lífið áfram sinn vanagang. Þetta hefur gerst áður, án þess að gera lítið úr atburðunum. Fólk er orðið vant þessar áhættu. Að eitthvað svona geti gerst.“

Viðbúnaður í Jakarta hefur aukist töluvert í kjölfar árásanna en Árni á ekki von á því að það vari lengi. „Það sem gerðist eftir sprengingarnar á Bali og Marriott-sprengingarnar hérna í Djakarta fyrir um sex árum síðan, þá varð til eitthvað sem heitir öryggisgæsla hér í Jakarta. Þú hafðir alltaf getað gengið þokkalega óáreittur inn í verslunarmiðstöðvar og skrifstofubyggingar. Þá fóru þeir að setja upp járnleitarhlið og öryggisverði.“

Árni segir öryggisgæsluna þó ekki alltaf hafa verið upp á marga fiska. „Það hefur svona að stórum hluta til verið til sýnis. Ég gæti örugglega sloppið í gegn með nokkrar skammbyssur í handfarangri ef ég virkilega ætlaði mér að gera það. En eftir atvikið í gær hafa þei hert gæslu. Fjölgað vörðum og lokað ákveðnum hurðum á skrifstofubyggingum. En ég reikna með að það breytist strax um helgina. Í gærkvöldi var lítið af fólki í verslunarmiðstöðvum en í strax í dag virðist allt vera komið af stað aftur.“