Íslendingar á „Hafravatnsflugvelli“

14.02.2016 - 20:14
Hafravatn í Mosfellssveit breyttist í flugvöll í dag og var töluverð umferð um völlinn. Þar voru á ferð félagar í Félagi íslenskra einkaflugmanna. Búið var að ganga úr skugga um að ísinn væri heldur, en hann er um 20 sentimetra þykkur og rennisléttur.

Að sögn Haraldar Diego varaformanns Íslandsdeildar alþjóðasamtaka einkaflugmanna og flugvélaeigenda var megintilgangurinn með þessu að hafa gaman af, en einnig að æfa menn í að lenda við þessar aðstæður. Hann segir marga reynda flugmenn í hópnum, sem sumir hafa aldrei lent á vatni. Það sé því mikilvægt að æfa slíkt ef eitthvað skyldi koma upp á.

Alls tóku 9 flugvélar þátt í viðburðinum í dag og voru þær af ýmsum gerðum, sumar heimasmíðaðar en aðrar úr verksmiðjum. Sumir flugkappanna létu sér nægja að lenda einu sinni en aðrir lentu aftur og aftur.

Haraldur segir þetta einnig hluta af félagsstarfi hópsins og bjóða upp á skemmtilega samveru. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta vatn þeirra Mosfellinga breytist í flugvöll, ef svo má segja, því fyrir 16 árum var þetta einnig gert.

Að sögn Haraldar kom sá kunni flugmaður með meiru, Ómar Ragnarsson þá með hugtak fyrir svona athæfi; nefnilega Íslendingar. 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV