Íslandstökur í Star Wars lentu á klippigólfinu

Innlent
 · 
Menningarefni

Íslandstökur í Star Wars lentu á klippigólfinu

Innlent
 · 
Menningarefni
05.01.2016 - 14:27.Freyr Gígja Gunnarsson
Aðeins lítill hluti af þeim tökum sem fóru fram hér á landi í tengslum við nýjustu Stjörnustríðsmyndina var notað í kvikmyndinni sjálfri, samkvæmt heimildum fréttastofu. Bróðurparturinn virðist því hafa hafnað á klippigólfinu, meðal annars eltingaleikir sem teknir voru upp hér. Tökuliðið hafði áhuga á að taka upp stærstu bardagasenuna í myndinni hér á landi en hætti við.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst fóru tökurnar að mestu leyti fram á Austurlandi, milli Mývatns og Egilsstaða, auk þess sem eitthvað var um tökur við Mýrdalsjökul.

Írar ætla sér að nýta Stjörnustríðsæðið til fullnustu og hafa meðal annars útbúið myndband þar sem J.J Abrams, leikstjóri The Force Awakens, lofsamar eyjuna Skellig Michael sem sést undir lok myndarinnar.

Mikil leynd hvíldi yfir tökunum þegar þær fóru fram hér á landi í apríl fyrir tveimur árum. Upp komst um veru tökuliðsins hér á landi þegar það lenti í hremmingum á Eyjafjallajökli þegar þyrlu frá Norðurflugi hlekktist á.

Tökurnar rötuðu þó í erlenda fjölmiðla. Götublaðið The Sun greindi frá því að tökulið raunveruleikaþáttanna um ólátabelgina í Geordie Shore og Stjörnustríðs hefðu verið á Íslandi á sama tíma og fréttavefurinn Bleeding Cool hafði eftir sínum heimildum að sjálfur Loðinn - Chewbacca - hefði verið í tökum hér á landi. 

Þetta er þó ekki eina Stjörnustríðsmyndin sem hefur verið í tökum hér á landi. Star Wars: Rogue One var að hluta til tekin upp hér á landi í september á síðasta ári. Hún er svokallað „spin off“ og gerist fyrir fyrstu Stjörnustríðsmyndina Star Wars: A New Hope. Hún segir frá hópi uppreisnarliða sem reynir að stela teikningum af Dauðastjörnunni alræmdu. 

Stjörnustríðsmyndin hefur slegið öll aðsóknarmet – hún þurfti bara sextán daga í sýningum á Bretlandi til að verða vinsælasta myndin þar á nýliðnu ári. Hér á landi hefur hún malað gull. 66 þúsund hafa séð hana og nemur miðasalan nærri 90 milljónum.