Íslandsfrumsýning brimbrettamyndar á Ísafirði

18.06.2017 - 21:27
Öldurnar voru magnaðar, segir brimbrettakappi og leikstjóri brimbrettamyndar sem var frumsýnd á Ísafirði í kvöld. Leikstjórinn segist ekki viss um að heimafólk átti sig á því hversu miklir möguleikar séu fólgnir í íslensku öldunum.

Under an Arctic Sky, eða undir heimskautahimni, er brimbrettamynd ljósmyndarans og brimbrettakappans Chris Burkard og kvikmyndagerðarmannsins Ben Weiland. „Við Ben vildum sýna þetta fallega landslag og dugmikla fólkið sem fer hér á brimbretti,“ segir Chris Burkard, leikstjóri myndarinnar.

Félagarnir, ásamt sex brimbrettakempum, hugðust halda með skútu um miðjan vetur í friðlandið á Hornströndum til að finna góðar öldur en áætlanir breyttust. „Þegar við vorum komin af stað kom mikill stormur svo við þurftum að snúa skyndilega til baka. Og á endan snérist þetta meira um að þurfa ekki alltaf að fylgja skipulaginu.“

Myndin er tekin upp á Vestfjörðum og á Tröllaskaga og hefur nú verið sýnd í norður Ameríku og nú á Íslandi. Burkard fannst viðeigandi að hafa Íslandsfrumsýninguna á Ísafirði þar sem ísfirsk skúta og skipstjóri hennar eru í lykilhlutverkum í myndinni. „Ég vildi koma til baka og sýna heimafólki fólki þar sem fólk veit kannski ekki einu sinni af. Það felast svo miklir möguleikar í þessari iðju.“ Myndin verður sýnd í Bíó Paradís, í Reykjavík, á morgun.

Chris Burkard hefur getið af sér gott orð sem ljósmyndari og er orðinn sannkallaður Íslandsvinur, komið 28 sinnum til landsins: „Ég vildi finna staði sem höfðu jafnvel verið afskrifaðir vegna þess að það væri of kalt eða of hættulegt. Og á Íslandi fann ég það og meira til.“

Og hvernig voru öldurnar?

„Eins góðar og nokkurstaðar sem ég hef verið. Magnaðar.“