Íslandsbanki leitar að Steingrími vegna skulda

07.03.2016 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson
Íslandsbanka hefur ekki tekist að birta athafnamanninum Steingrími Wernerssyni tvær stefnur vegna skulda sem bankinn hefur reynt að innheimta. Þetta kom fram í Lögbirtingablaðinu fyrir helgi. Báðar stefnurnar eru vegna lána til eignarhaldsfélagsins Vægi sem var í eigu Steingríms. Annað lánið var upp á tæpar 28 milljónir, hitt upp á rúmar 133 milljónir.

DV greindi frá fyrri stefnunni á föstudag.  Í báðum stefnunum, sem eru birtar í Lögbirtingablaðinu, kemur fram að allar innheimtutilraunir Íslandsbanka hafi verið án árangurs og því sé málsókn nauðsynleg.  Lánin voru tekin fyrir 11 árum - annað í janúar en hitt í apríl.

Þá segir enn fremur að ítrekað hafi verið reynt að birta Steingrími stefnu -hann sé búsettur í Lundúnum og að um miðjan þennan síðasta mánuð hafi borist staðfesting frá þar til bærum aðila í Bretlandi að ekki hefði tekist að birta athafnamanninum stefnuna á þeim heimilisföngum sem upplýsingar voru um að hann hefði búið.

Eignarhaldsfélagið Vægi var stofnað  í september fyrir 16 árum af Steingrími og bróður hans, Karli Emil Wernerssyni - Steingrímur var skráður framkvæmdastjóri en Karl stjórnarformaður.  Tilgangur félagsins var í stofngögnum sagður rekstur smásölu, rekstur umboðs- og heildverslunar, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur.

14 árum síðar var félagið tekið til gjaldþrotaskipta. Í frétt DV kom fram að skuldir félagsins hefðu árið 2012 numið 300 milljónum en það hefði aðeins átt eignir upp á 150 milljónir króna. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem viðskipti Steingríms og Íslandsbanka enda fyrir dómi. Í mars 2014 sýknaði Hæstiréttur bankann af kröfu Steingríms um að Íslandsbanki ætti að greiða honum 400 milljónir vegna millifærslu af reikningi hans inn á reikning Milestone. Héraðsdómur hafði áður dæmt bankann til að greiða upphæðina. 

Steingrímur var meðal þeirra sex sem voru sýknaðir í Milestone-málinu svokallaða. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.  

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV