Íslandsbanki færir korthafa til Mastercard

01.02.2016 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
34 þúsund kreditkorthafar og 90 þúsund debetkorthafar Íslandsbanka færast nú frá VISA yfir til Mastercard eftir að bankinn ákvað að segja upp samningi sínum við VISA. Bankinn segist ná fram hagræðingu með þessu. Formaður Neytendasamtakanna undrast að korthafarnir njóti ekki meira góðs af því en raun ber vitni þar sem þeir þurfi að standa í veseni við að uppfæra kortanúmer sín við fastagreiðslur sem skuldfærast á kortin.

Í svari Íslandsbanka við fyrirspurn fréttastofu segir að breytingin sé gerð til að einfalda rekstur og vöruframboð. Framundan séu miklar tæknibreytingar hjá kortasamsteypunum og með þessari aðgerð geti bankinn við brugðist betur við þeim. Þá geti viðskiptavinir breytt um pin nýtt sér snertilausa virkni.

Ákvörðun hafi verið tekin um að segja upp samningi við VISA eftir útboðsferli þar sem samið var við MasterCard í Evrópu. 

Íslandsbanki getur ekki ábyrgst að allar fastar greiðslur flytjist sjálfkrafa yfir á nýja kortið. Korthafar þurfa þá sjálfir að uppfæra þær. Þá þurfi handhafar fyrirframgreiddra korta að færa boðgreiðslur yfir á nýja MasterCard kortið áður en eldra korti er lokað.

„Okkur finnnst þetta svolítið einhliða aðgerð svona fljótt á litið. Þetta er einhliða aðgerð af hálfu bankans að færa fólk hreppaflutningum frá einu kortafyrirtæki til annars. Mér myndi hugnast það betur að það væri neytandinn sem myndi ákveða hvort hann vildi vera með Mastercard eða VISA-kort,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. 

„Hins vegar þætti mér mjög eðlilegt fyrst bankinn segist spara á þessu að hann gæti komist til móts við óþægindi þeirra sem þurfa núna að fá sér nýtt kort, jafnvel á miðju tímabili, með því að nota hagnaðinn sem verður til af þessari aðgerð til að bæta fólki upp með afslætti af nýju korti. Það teldi ég mjög eðlilegt. Þarna er verið að færa ákveðna vinnu yfir á neytendur sem þeir reiknuðu ekki með. Með svona einhliða aðgerð þá tel ég eðlilegt að bankinn bara hreinlega komi á móts við þetta fólk sem færist núna frá VISA yfir á Mastercard, bara einskonar óþægindaálag vegna þeirrar aukavinnu sem fólki er gert að framkvæma vegna þessarar ákvörðunar bankans,“ segir Jóhannes. 

Þeir sem vilja vera áfram með VISA  kort þurfa að skipta um banka en þá þurfa þeir það engu að síður að uppfæra allar kortaupplýsingar um sig sem tengjast föstum greiðslum. „En það sem að er auðvitað lykilatriði, og við leggjum áherslu á í allri okkar aðkomu að viðskiptabankamarkaðnum, er að viðskiptavinir hafi sem besta möguleika á að taka sjálfir ákvarðanir um hvar þeir hafa sín viðskipti,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. „Kostnaðurinn og fyrirhöfnin við það að skipta um viðskiptabanka er ærinn bæði hér og erlendis og við höfum mælst til þess við bankana og munum gera það áfram að þeir geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að auðvelda viðskiptavinum að flytja sig á milli banka.“

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV