Ísland vel búið undir faraldur

14.09.2017 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hjá Embætti landlæknis, hefur efasemdir um fregnir þess efnis að búast megi við skæðasta flensufaraldri sögunnar í vetur. Hann segir Ísland eins vel undirbúið undir slæman faraldur eins og mögulegt sé.

„Við vitum jú alltaf að inflúensan kemur hér á hverjum vetri en fyrir fram vitum við aldrei nákvæmlega hversu skæð hún verður og hún er mismunandi skæð á milli ára,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hjá Embætti landlæknis.

Þórólfur segir að fréttir um faraldurinn séu orðum auknar. Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa ekki lýst yfir mjög þungum áhyggjum og ástandið sé ekki eins slæmt í Ástralíu og látið hafi verið í veðri vaka.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ekki lýst yfir neinum sérstökum áhyggjum og evrópska sóttvarnastofnunin ekki heldur. Þannig að enn sem komið er myndi ég taka þessum fréttum með ákveðnum fyrirvara.

Þórólfur segir að Ísland sé vel búið undir árlegan inflúensufaraldur og ætíð sé gert ráð fyrir að hann geti orðið slæmur. Keyptir hafi verið 65 þúsund skammtar af bóluefni og til sé lager af veirulyfjum ef á þurfi að halda.

„Við erum með viðbragðsáætlun gegn slæmri inflúensu, svokölluðum heimsfaraldri inflúensu, sem við höfum æft og er tiltæk, þannig að ég myndi segja að við erum eins vel undirbúin undir slæman faraldur eins og mögulegt er.“

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV