Ísland vann Ungverjaland

12.08.2017 - 15:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland A landsliðið í körfuknattleik karla vann Ungverjaland með fjórum stigum í dag. Íslenska liðið er sem stendur í æfingabúðum í Rússlandi en þær æfingabúðirnar eru hluti af undirbúningi landsliðsins fyrir Evrópumótið sem fram fer í Finnlandi nú síðar í þessum mánuði og þeim næsta.

Annan leikinn í röð var það hinn ungi Martin Hermannsson sem var stigahæstur í íslenska liðinu en hann gerði 14 stig í dag í 60-56 sigri íslenska liðsins. Þar á eftir komu þeir Kristófer Acox og Hlynur Bæringsson, báðir með 13 stig.

Ísland tapaði stórt í gær gegn Þýskalandi en nánar um þann leik má sjá í fréttinni hér til hliðar. Á morgun mætir liðið svo heimamönnum í Rússlandi.

Evrópumótið í körfuknattleik fer fram dagana 31. ágúst til 6. september og verða allir leikir Íslands í beinni á RÚV ásamt því að aðrir leikir verða sýndir beint á RÚV og RÚV2. Tímasetningar leikjanna má finna á íþróttasíðu okkar.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður