Ísland valið áfangastaður ársins

07.01.2016 - 10:47
Ferðatímaritið Luxury Travel Guide hefur útnefnt Ísland sem áfangastað ársins 2016 og er með umfjöllun um landið á tugum síðna í prent-og vefútgáfu blaðsins, sem kemur út í liðlegra hálfri milljón eintaka. Lesendahópurinn samanstendur er auðugir ferðamenn, að því er fram kemur í tilkynningu frá Íslandsstofu.

Á hverju ári útnefnir tímaritið fjölda staða með einu landi sem aðalútnefningu. Luxury Travel Guide segir Ísland hafa orðið fyrir valinu vegna heillandi sögu og einstaks landslags sem geri landið að einum sérstakasta áfangastað sem ferðamaður geti komist til. 

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, sagði á Morgunvaktinni í morgun, að þessi viðurkenning sé mjög milivæg fyrir markaðsstarfið - og komi í kjölfar fjölmargra annarra viðurkenninga og jákvæðra umsagna að undanförnu.

Ferðamenn sem sóttu Ísland heim á nýliðnu ári voru yfir milljón og þykir allt benda til þess að þeir verði um ein og hálf milljón á þessu ári. 

Tímaritið útnefnir einnig hótel og ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi. ION Hótel er valið lúxushótel ársins á Íslandi, Hótel Rangá besta Boutique hótelið, Bláa lónið besta heilsulindin, Radisson Blu besta hótelið fyrir viðskiptaferðamenn, Super Jeep besta ferðaþjónustufyrirtækið, Icelandic Taxi Tour besta skutluþjónustan, Íslenski hesturinn besta sérhæfða ferðaþjónustufyrirtækið í ævintýraferðamennsku og Goecco Eco Adventures besta vistvinveitta fyrirtækið.  

Þá hefur annar miðill, Rough Guides, valið Reykjavík efst á lista tíu bestu borganna til að heimsækja árið 2016 og Ísland varð í fimmta sæti sem „val fólksins“ hjá Rough Guides.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi