Ísland taki ekki upp reglur ESB um rafrettur

01.03.2016 - 20:54
Rafretta var eitt af nýyrðum ársins 2015. Þessir gufustautar sem fólk sýgur til að taka inn nikótín, yfirleitt í stað þess að reykja tóbak, hafa hins vegar valdið nokkurn usla. Hvaða áhrif hafa rafretturnar? Eru þær úlfur í sauðargæru eða prýðilegt tæki í baráttunni við tóbaksreykingar?

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir, er í hópi þeirra sem telja rafretturnar mikið framfaraspor, þær geti stuðlað að því að draga úr reykingum og þar með bæta verulega heilbrigði reykingafólks.

Hann bendir á stefnu breskra heilbrigðisyfirvalda, en þar sé byggt á viðamiklum rannsóknum sem endurspeglist svo í þarlendum leiðbeiningum um rafrettur.

Hópur íslenskra lækna birti grein á Vísi í byrjun janúar þar sem varað var eindregið við útbreiðslu rafrettna. Þær hefðu ekki verið nægjanlega rannsakaðar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefði hvatt ríki heims til að setja hertar reglur um notkun þeirra. Þær gætu reynst úlfar í sauðargæru og allrar varúðar þyrfti að gæta. Á meðan ekki væri vitað um langtímaáhrif yrði að fara varlega. Það sé miður að engar reglur eða lög gildi um notkun rafrettna hérlendis.

Evrópusambandið mun innleiða hertar reglur um framleiðslu, innflutning og sölu rafrettna í vor, þar sem miklar takmarkanir verða settar á auglýsingar, hámark nikótíns í vökvanum og ýmislegt fleira. Guðmundur Karl vonast til að þær hertu reglur verði ekki teknar upp hérlendis, því það kunni ekki góðri lukku að stýra að takmarka aðgengi að rafrettum meira en að sígarettum. 

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós