Ísland mætir Danmörku í Herning í mars

21.01.2016 - 16:20
epa05029433 Danish national soccer team players (front row, L-R) Vicktor Fischer, Lars Jacobsen, Christian Eriksen, Riza Durmisi, and Thomas Kahlenberg; (back row, L-R) goalkeeper Kasper Schmeichel, William Quist, Simon Kjaer, Nicklas Bendtner, Martin
Það verður nágrannaslagur í mars þegar Ísland og Danmörk mætast í vináttulandsleik.  Mynd: EPA  -  SCANPIX DENMARK
KSÍ hefur staðfest að karlalandslið Íslands og Danmerkur mætast í vináttulandsleik á MCH-vellinum í Herning á Jótlandi 24. mars. Leikurinn er liður í undirbúningi Íslands fyrir EM í Frakklandi í sumar og nú er ljóst að íslenska liðið mætir tveimur fyrrverandi Evrópumeisturum í aðdraganda EM.

Danmörk varð Evrópumeistari í Svíþjóð 1992 en 29. mars spilar Ísland við Grikkland í Aþenu en Grikkir urðu Evrópumeistarar í Portúgal 2004. 

Af þessum þjóðum er Ísland sú eina sem er á leiðinni á EM að þessu sinni en Danir töpuðu gegn Svíum í umspili en Grikkir áttu arfaslaka undankeppni og höfnuðu í neðsta sæti G-riðils eftir meðal annars tvö töp gegn Færeyjum. 

MCH-leikvangurinn er heimavöllur úrvalsdeildarfélagsins FC Midtjylland og tekur tæplega 12 þúsund manns í sæti. Líklegt verður að teljast að íslenska liðið fái góðan stuðning á vellinum enda talsverður fjöldi Íslendinga búsettur í Herning og nágrenni.

Um alþjóðlega leikdaga er að ræða og því verða allir sterkustu leikmenn þjóðanna til taks.

Leikir Íslands gegn Danmörku og Grikklandi verða í beinni útsendingu á RÚV. 

Mynd með færslu
Haukur Harðarson
íþróttafréttamaður