Ísbrjóturinn ástralski kominn á flot

27.02.2016 - 01:32
epa05181469 A handout picture made available by the Australian Antarctic Division (AAD) on 26 February 2016 shows Australian icebreaker Aurora Australis stuck on rocks at West Arm in Horseshoe Harbour, Antarctica, 25 February 2016, during a resupply
 Mynd: EPA  -  AAP/AAD
Ástralski ísbrjóturinn Aurora Australis, sem rak upp í landsteinana í Horseshoe-höfninni á Suðurskautslandinu á miðvikudag þegar landfestar slitnuðu í ofsaveðri, er nú kominn á flot aftur. 68 voru um borð þegar skipið strandaði, þar af 37 vísindamenn, sem bjargað var í land snemma á föstudag eftir að mesti hvellurinn var afstaðinn.

Í tilkynningu frá Suðurskautsstofnun Ástralíu segir að vel hafi gengið að koma skipinu aftur á flot á háflóðinu síðdegis á föstudag. Notast var við jafnvægistankakerfi skipsins og smærri báta við verkið.

Næstu daga verður unnið að því að kanna skemmdir á skipsskrokknum, en fyrsta skoðun bendir til þess að þær séu eingöngu á ytra byrði þessa sterkbyggða dreka. Engan olíuleka er að sjá. Unnið er að því að finna leiðir til að koma vísindamönnunum og hluta áhafnarinnar aftur til Ástralíu, þar sem ekki þykir öruggt að leggja í langferð á Aurora Australis enn sem komið er, og birgðir takmarkaðar í Mawson-rannsóknarstöðinni, þar sem fólkið dvelst nú. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV