IS sleppir gíslum í Deir ez-Zor

20.01.2016 - 05:21
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Saahat Azar  -  Wikipedia
Vígasveitir íslamska ríkisins hafa sleppt 270 af um 400 almennum borgurum sem teknir voru í gíslingu í sýrlensku borginni Deir ez-Zor um helgina. Sveitirnar réðust inn á svæði borgarinnar sem eru á valdi sýrlensku stjórnarinnar.

Flestir gíslanna sem var sleppt eru konur og börn að sögn mannréttindavaktar Sýrlands. Að sögn Rami Abdulrahman, yfirmanns mannréttindavaktarinnar, eru flestir gíslarnir sem enn eru í haldi karlmenn á aldrinum 14 til 55 ára. Mannréttindavaktin segir vígasamtökin hafa tekið 50 manns til viðbótar í gíslingu í gær þegar vígamenn réðust inn í hús á svæðinu.

Að minnsta kosti 135 féllu í árásum vígasveitanna í borginni um helgina.

Deir ez-Zor er enn að miklu leyti undir stjórn vígasveitanna. Borgin er í austurhluta Sýrlands og liggur á milli Raqqa og svæðis samtakanna í Írak.