IS flutti fólk frá Sýrlandi til Tyrklands

11.01.2016 - 01:49
In this photo released on May 4, 2015, by a militant website, which has been verified and is consistent with other AP reporting, Islamic State militants pass by a convoy in Tel Abyad town, northeast Syria. In contrast to the failures of the Iraqi army, in
Liðsmenn Íslamska ríkisins.  Mynd: AP  -  Militant Website
Svo virðist sem hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafi aðstoðað fólk við að komast frá Sýrlandi yfir landamærin til Tyrklands. Vefsíða breska dagblaðsins Guardian segist hafa gögn þessu til staðfestingar undir höndum.

Guardian hefur í fórum sínum farþegaskrár dagsettar frá desember 2014 til mars 2015. Þær eru merktar bæði innflytjenda- og samgöngudeilda IS. Nöfn, fæðingardagar, kennitölur og fæðingarstaðir farþeganna eru skráðir í bókina. Rútur óku farþegunum í gegnum Tel Abyad, sýrlenskan bæ við landamærin að Tyrklandi. Kúrdar náðu honum á sitt vald í sumar og komust þannig yfir farþegaskrárnar.

Tyrkir hafa lengi sagt að þeir geti með engu móti gætt öryggis yfir landamæri sín við Sýrland, en þau eru um 800 kílómetra löng. Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í viðtali í janúar í fyrra að ómögulegt væri að loka landamærunum. Ríkið hefði ekki nægan herafla til þess að gæta landamæranna.

Alls hefur Guardian sjö farþegaskrár undir höndum, allar undirritaðar af ferðaþjónustufyrirtækjum í Mosul í Írak og Raqqa í Sýrlandi. Þær gefa til kynna að á tímabili hafi formlegur flutningur fólks farið fram yfir landamærin frá Sýrlandi.

Guardian segist hafa fengið gögnin frá talsmanni hersveita Kúrda í Sýrlandi. Þau beri sömu merkingar og önnur gögn frá IS sem blaðið hefur sannreynt. Gögnin ná yfir 70 farþega á þessu fjögurra mánaða tímabili. 42 fullorðna og 28 undir 18 ára aldri, þar af sjö börn yngri en tveggja ára.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV