Írska stjórnin líklega fallin

27.02.2016 - 05:39
epaselect epa05181713 A TV journalist fixes her make up while waiting for the arrival of Irish Prime minister Enda Kenny to arrive to cast his vote at a polling station in Castlebar, County Mayo, Ireland, 26 February 2016. Irish voters go to the polls in
Írsk sjónvarpsfréttakona notar tímann til að sminka sig á meðan hún bíður komu Enda Kennys á kjörstað í Castlebar í Mayo-sýslu.  Mynd: EPA
Samsteypustjórn Fine Gael og Verkamannaflokksins á Írlandi er fallin, ef útgönguspár ganga eftir. Írar kusu sér löggjafarþing í gær og svo virðist sem kjósendur hafi refsað stjórnarflokkunum harðlega fyrir að efnahagsleg uppsveifla síðustu missera skuli ekki hafa skilað sér nægilega vel til almennings. Fine Gael, flokkur Enda Kennys, forsætisráðherra, er þó enn stærstur samkvæmt þessu, með 26,1% stuðning, en var með 36.1% í síðustu kosningum. Fylgi Verkamannaflokksins hrynur úr 19,5% í tæp 8%.

Gamli valdaflokkurinn Fianna Fáil hefur náð sér nokkuð á strik frá því síðast, fær tæp 23% atkvæða en fékk 17.5% 2011, sem var minnsta fylgi flokksins frá stofnun írska lýðveldisins 1922. Fylgið nú er þó langt frá því sem flokkurinn hefur átt að venjast í gegnum tíðina, sem var í kringum 40% árum saman.

Smærri flokkar og óháðir frambjóðendur (16,1%) og Sinn Féin (15%) ná góðri kosningu nú, ef spárnar ganga eftir, og allt útlit er fyrir erfiðar og flóknar stjórnarmyndunarviðræður í framhaldinu. 157 þingmenn eru á írska þinginu, sem þýðir að 79 þingsæti eru lágmark til að mynda meirihluta, og vandséð þykir hvernig safna má í slíkan, verði úrslitin í samræmi við spána.

Flókið kosningakerfi

Kosningakerfið írska er með þeim hætti, að erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um skiptingu þingsæta. Það byggir á svokallaðri forgangsröðunaraðferð eða persónulegum hlutfallskosningum, og er einskonar blanda af einmenningskjördæmakerfinu breska og hlutfallskosningum eins og þeim, sem Íslendingar eiga að venjast.

Kjósendur merkja við lista og forgangsraða frambjóðendum þess lista með því að númera þá. Þegar sú manneskja á listanum sem flestir setja í efsta sæti hefur fengið nægilega mörg atkvæði til að tryggja henni þingsæti færast öll atkvæði umfram það yfir á þann frambjóðanda listans sem næst-flest atkvæði fær og svo koll af kolli. Hugmyndin að baki þessu er að fækka þeim atkvæðum sem detta dauð niður.

Talning hefst klukkan 9 og reiknað er með að fyrstu úrslit liggi fyrir síðdegis. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV