Irma orðin 1. stigs fellibylur

11.09.2017 - 06:36
epa06197204 A toppled box truck after the full effects of Hurricane Irma struck in Miami, Florida, USA, 10 September 2017. Many areas are under mandatory evacuation orders as Irma Florida.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Fimm hafa farist í Flórída af völdum fellibylsins Irmu, sem hamast hefur á Flórídaskaga síðasta sólarhringinn. Irma telst nú 1. stigs fellibylur og er því spáð að hún verði orðinn að hitabeltisstormi áður en dagurinn er á enda. Irma hefur valdið flóðum og miklum skemmdum hvar sem hún hefur farið yfir, jafnt á mannvirkjum sem gróðri, en hamfarirnar hafa þó verið öllu minni en óttast var.

Er það ekki síst rakið til þess að bylurinn gekk snemma á land og hefur ekki hnikast á haf út á leið sinni norður eftir skaganum. Því hefur Irma ekki náð að sækja sér nýjan styrk í hlýjan sjóinn undan Flórídaströndum. Loftþrýstingur hefur þó verið svo lágur, að fjarað hefur meira út frá stórum svæðum Flórída en elstu menn muna og því er enn talin töluverð hætta á sjávarflóðum, þegar Irma sleppir takinu. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti í gærkvöld yfir hamfaraástandi í Flórida að beiðni Ricks Scott, ríkisstjóra Flórida. Forsetinn hét ríkinu jafnframt neyðaraðstoð vegna hamfaranna.

Alls hafa 33 dauðsföll verið rakin til Irmu; 5 í Flórída og 28 á Karíbahafseyjunum St. Martin, Bresku og Bandarísku Jómfrúareyjum, Púertó Ríkó, Barbúda, Anguilla og víðar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV