Irma komin að Barbúda

06.09.2017 - 08:12
epa06186994 A handout photo made available by the National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA) shows a geocolor image of Hurricane Irma captured by NOAA's GOES-16 satellite as it strengthened to a Category 5 hurricane in the Central
Fellibylurinn Irma.  Mynd: EPA-EFE  -  NOAA
Hinn gríðarmikli fellibylur Irma fer nú vestur yfir Karíbahaf og kom á land í morgun á eynni Barbúda. Mikill viðbúnaður er á Púertó Ríkó og flestum eyjunum þar sem íbúar búa sig undir það versta og reyna að grípa til ráðstafana vegna þeirra hamfara sem fylgja fellibylnum.

Búist er við að fellibylurinn komi inn yfir Púertó Ríkó upp úr hádegi í dag. Irma er einn öflugasti fellibylur í mannaminnum að mati bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar, fimmta stigs fellibylur og hefur meðalvindhraði þegar náð um 300 kílómetrum á klukkustund, eða 83 metrum á sekúndu.

Líklegt þykir að Irma verði öflugasti fellibylur sem um getur á þessum slóðum áður en yfir lýkur.

Sandra Bahri, íbúi á Antigúa, segir að fólk þar sé að negla fyrir glugga og byrgja sig upp af helstu nauðþurftum drykkjarvatni og mat, biðraðir hafa verið við verslanir hún óttist að bylurinn verði hörmulegur. Íbúar séu óttaslegnir. Fjölmörg neyðarskýli hafa verið opnuð. 

Ricardo Rosello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, hvetur eyjarskeggja til að tryggja öryggi sitt og sinna en huga jafnframt að þeim sem eru hjálpar þurfi, ekki síst öldruðum. Um 3,5 milljónir manna búa á Púertó Ríkó og fátækt er þar mikil.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þegar lýst yfir neyðarástandi á Púertó Ríkó, sem er bandarískt yfirráðasvæði.