Irma gæti valdið mikilli eyðileggingu

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á Púertó Ríkó og á Flórída vegna fellibylsins Irmu sem er nú á leið yfir Karíbahaf. Irma er enn að vaxa. Hún er orðin fimmta stigs fellibylur og bandaríska fellibyljamiðstöðin segir hana gríðarlega hættulega. Meðalvindhraðinn, þar sem hann mælist mestur, nær áttatíu metrum á sekúndu. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir útlitið dökkt.

Viðvaranir hafa verið gefnar út á fjölda eyja á Karíbahafi. Á Púertó Ríkó hefur neyðarástandi verið lýst yfir og þjóðvarðliðinu gert viðvart. Neyðarástandi hefur einnig verið lýst yfir á Flórída, þangað sem búist er við að Irma nái á sunnudag. 

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir nærtækast að bera Irmu saman við Harvey, sem gekk á land á suðvesturströnd Bandaríkjanna í síðustu viku. Hún sé enn að vaxa, fari yfir mjög hlýtt haf á næstunni og eigi eftir að vaxa áfram í kjöraðstæðum þar til hún nær landi. „Það má í sjálfu sér búast við svipuðu. Það sem er kannski öðruvísi við þennan fellibyl núna er að það er heldur hvassara. Harvey var fjögurra stigs fellibylur þegar hann gekk á land en Irma er orðin fimmta stigs fellibylur og það er ekki útlit fyrir að Irma stoppi yfir landi eins og Harvey gerði sem varð þess valdandi að það var þessi gríðarlega rigning svona lengi. En það er talsverður munur á fjórða og fimmta stigs fellibyl þannig að þetta er verri fellibylur og svo skulum við ekki gleyma því að hann er fara þarna yfir Púertó Ríkó, Kúbu. Þetta eru samfélög sem eru miklu verr undir svona veður búin heldur en nokkurn tíma Bandaríkin,“ sagði Elín Björk í síðdegisútvarpinu á Rás2. 

Elín Björk segir erfitt að segja til um hvert Irma fari, flestar spár bendi til þess að hún nái Flórídaskaganum og deyi út fljótlega eftir það. „Þegar að Irma myndast, þarna strax í kjölfarið á Harvey þá gerðu spár ráð fyrir að hún færi upp með Flórídaskaganum austan megin, semsagt að hún færi ekki inn á Mexíkóflóa. Núna er þetta alltaf að færast aðeins vestar og það eru alveg spár að hún fari yfir Mexíkóflóa yfir opið haf en núna eru mestar líkur á að hún fari inn á Flórídaskaga og þar yfir og deyi mjög fljótt út þar.“