Íranar búnir að sleppa bandarísku dátunum 10

14.01.2016 - 00:54
epa05100567 A handout picture made available by the official website of Iranian Revolutionary Guard Corps (IRGC) on 13 January 2016 shows US military personnel who were captured by the IRGC a day earlier, at an undisclosed location in Iran. Ten American
 Mynd: EPA  -  IRGC OFFICIAL WEBSITE
Bandarísku dátunum tíu, sem handteknir voru þegar þeir fóru inn í íranska lögsögu á tveimur bátum í gær, hefur verið sleppt úr haldi. Bilun kom upp í öðrum bátnum, sem rak þá inn í íranska landhelgi, og hinn fylgdi á eftir til að reyna að aðstoða. Talsmenn Íranshers hafa nú sæst á þá skýringu að um óviljaverk hafi verið að ræða og sleppt bæði dátunum og bátunum.

Bandarísk stjórnvöld hafa þakkað Írönum fyrir að leysa svo hratt og greiðlega úr málinu og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir lausn þess til vitnis um mikilvægi þess að viðhalda góðum milliríkjasamskiptum til að tryggja öryggi landsins og borgara þess. Kerry sneri sér beint til hins íranska kollega síns, Mohammads Javads Zarifs, þegar fréttir bárust af handtöku dátanna, en þeir hafa verið í miklum samskiptum í tengslum við kjarnorkusamning Írana og sexveldanna, það er Bandaríkjanna, Rússlands, Kína, Þýskalands, Frakklands og Bretlands.

Það þykir sæta tíðindum hve lítið var gert úr málinu í írönskum fjölmiðlum, en ekki er langt síðan atvik á borð við þetta hefði kallað á hörð og mikil viðbrögð jafnt stjórnvalda sem fjölmiðla í Íran. Vestanhafs gagnrýndu þeir Marco Rubio, Jeb Bush og Donald Trump framgöngu Kerrys og ríkisstjórnarinnar í málinu. Rubio sagði Írana augljóslega vera að láta reyna á staðfestu og ákveðni Obama-stjórnarinnar, Bush sagði þetta afhjúpa skammarlega veikburða stefnu Obamas í málefnum Írans og Trump sagði Írana vera að spila með Bandaríkin. Allir eru þeir einarðir andstæðingar kjarnorkusamningsins, sem meðal annars kveður á um að viðskiptaþvingunum gegn Íran verði aflétt. Harðlínumenn í Íran hafa ekki síður hamast gegn samningnum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV