Íran: Umbótasinnar og hófsamir með yfirhöndina

28.02.2016 - 04:51
epa05182254 Iranians girls show the ink on their fingers, indicating they have voted, in the parliamentary and Experts Assembly election at a polling station at Ershad Mosque in Tehran, Iran, 26 February 2016. Voting began in Iran's parliamentary
 Mynd: EPA
Hófsamir og umbótasinnar virðast hafa fengið mun betri kosningu en frambjóðendur afturhaldsamari harðlínumanna í kosningunum í Íran á föstudag. Tvennar kosningar fóru fram samtímis, annars vegar þingkosningar og hins vegar kosningar í svokallað sérfræðingaráð. 290 þingmenn af báðum kynjum eiga sæti á íranska þinginu, en í sérfræðingaráðinu sitja 88 karlar, flestir klerkar yfir miðjum aldri, og eru æðsta klerki landsins til ráðuneytis.

Hassan Rouhani Íransforseti á sæti í sérfræðingaráðinu, rétt eins og forveri hans, Akbar Hashemi Rafsanjani, sem telst hófsamur íhaldsmaður. Þeir tveir fengu allra karla flest atkvæði í sérfræðingaráðskosningunum á meðan leiðtogi harðlínumanna, klerkurinn Taghi Mesbah Yazdi, var á meðal neðstu manna.

Af þingkosningunum berast þau tíðindi að allt útlit er fyrir að allir 30 þingmenn höfuðborgarinnar, sem jafnan hafa mikil ítök á þinginu, muni koma úr röðum umbótasinna. Mohammad Reza Aref, fyrrverandi varaforseti, er einn þeirra. Hann hafði fengið langflest atkvæði þegar helmingur atkvæða hafði verið talinn í Teheran, og þegar 90% atkvæða höfðu verið talin sýndi sig að fremsti frambjóðandi harðlínumanna var dottinn niður í 31. sætið. 

Rouhani segir að kosningaúrslitin styrki stjórn hans mjög í sessi og sýni glöggt hvert þjóðin vilji stefna - nýr kafli í efnahagsmálum Írans sé hafinn, sem byggi á innlendri þekkingu og tækifærum á alþjóðavettvangi.

Úrslit í sérfræðingaráðskosningunum munu væntanlega liggja fyrir fljótlega. Öðru máli gegnir með þingkosningarnar. Víða eru einmenningskjördæmi, og til að hljóta kosningu þarf frambjóðandi að fá minnst 25% atkvæða. Að meðaltali bítast 17 frambjóðendur um hvert þingsæti, svo fastlega má reikna með því að kjósa verði á milli efstu manna ansi víða í annarri umferð kosninganna, sem fram fer í apríl.