Íran: Kosningum lokið, talning hafin

27.02.2016 - 07:19
epa05182279 An Iranian woman before she votes in the parliamentary and Experts Assembly election at a polling station at Ershad Mosque in Tehran, Iran, 26 February 2016. Voting began in Iran's parliamentary elections, which mark the first test of the
Einn 32 milljóna íranskra kjósenda, sem nýttu kosningarétt sinn í gær.  Mynd: EPA
Engin stóru stjórnmálafylkinganna þriggja sem bítast um hylli íranskra kjósenda virðist ætla að ná meirihluta á íranska þinginu. Umbótasinnar, sem berjast fyrir auknu þing- og lýðræði í landinu virðast þó hafa bætt við sig töluverðu fylgi, samkvæmt fyrstu tölum. Það eru góðar fréttir fyrir Rouhani Íransforseta, sem oft á í erfiðum glímum við klerkaráðið.

Aukið fylgi umbótasinna virðist fyrst og fremst á kostnað harðlínumanna, sem eru enn betri fréttir fyrir forsetann.  Stærstu fylkinguna fylla þó þeir sem ef til vill má kalla hóflega framfarasinnaða íhaldsmenn.

Efnahags- og atvinnumál í brennidepli

Efnahags- og atvinnumál hafa verið mál málanna í aðdraganda kosninganna, ekki síst vegna þeirrar gjörbreyttu stöðu sem upp er komin eftir að víðtækum refsiaðgerðum Vesturlanda gagnvart Íran var aflétt. Efnahagur landsins er enn bágborinn þrátt fyrir nýfenginn aðgang að mörkuðum heimsins, þar á meðal olíumarkaðnum, og atvinnuleysi meðal ungmenna er enn um 25%, nær þrisvar sinnum meira en meðalatvinnuleysi í landinu.

6.200 manns bítast um 290 þingsæti

Engir eiginlegir stjórnmálaflokkar eru í framboði en um 6.200 frambjóðendur, þar á meðal nær 600 konur, skiptast þó gróflega í þessar þrjár meginfylkingar í slagnum um 290 þingsæti.

Til skamms tíma voru fylkingarnar aðeins tvær; umbótasinnar og íhaldsmenn, en á síðustu árum hefur orðið nokkur breyting þar á. Áköfustu umbótasinnarnir og hörðustu íhaldsmennirnir hafa ekki aðeins fjarlægst hverjir aðra, heldur einnig hófsamari félaga sína.

Nú er svo komið að hófsamari armar beggja fylkinga standa hvor öðrum nær en sínum fornu félögum á jöðrunum, og mynda þannig nýtt stjórnmálaafl á miðju íranskra stjórnmála.

Önnur umferð í apríl

Kosningarnar í gær voru fyrri umferð þingkosninganna og endanleg úrslit ráðast tæpast í henni í stórum hluta landsins. Víða eru einmenningskjördæmi, og til að hljóta kosningu þarf frambjóðandi að fá minnst 25% atkvæða. Að meðaltali bítast 17 frambjóðendur um hvert þingsæti, svo fastlega má reikna með því að kjósa verði á milli efstu manna ansi víða í annarri umferð kosninganna, sem fram fer í apríl.

Úrslit í kosningum til sérfræðingaráðsins, eða klerkaráðsins, ráðast hins vegar örugglega um helgina. Í þeim eru kosnir 88 klerkar,  æðsta klerki landsins til ráðuneytis. Jafnframt kjósa þeir nýjan æðsta klerk þegar þar að kemur.  Ekki er útilokað að það komi í hlut nýkjörins klerkaráðs að velja arftaka núverandi æðstaklerks, Ali Khamenei, sem er 76 ára gamall og heilsusveill.

Kjörsókn var talsvert minni en spáð hafði verið og nokkru minni en í kosningunum fyrir fjórum árum. Talsmaður innanríkisráðuneytisins sagði 32 af 55 milljónum atkvæðisbærra manna hafa nýtt sér kosningaréttinn að þessu sinni, eða 59 af hundraði. 2012 var kjörsóknin hins vegar ríflega 64%.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV