Innskotið í Dyngjujökli enn að lengjast

24.08.2014 - 09:40
Mynd með færslu
Mikil skjálftavirkni og GPS mælingar á færslu lands í kringum Bárðarbungu sýna að kvikuinnskotið í Dyngjujökli er enn að lengjast. Það nær nú langleiðina undir sporð jökulsins. Sterkir skjálftar í norður og suðurbrúnum öskjunnar í Bárðarbungu eru taldir verða vegna þrýstingsbreytinga í kvikuhólfinu.

Skjálftavirkni undir Dyngjujökli hefur verið að aukast síðustu klukkutímana. Flestir skjálftanna eru við rönd jökulsins, eða enda kvikuinnskotsins sem þar hefur myndast undanfarna daga: jarðvísindamenn telja þetta merki um að kvika streymi enn þar fram og að innskotið sé að þrengja sér áfram í norðurátt. Nýjustu yfirlit yfir skjálftastaðsetningar sýna fram á þetta, sem og GPS mælingar á Dyngjuhálsi, Vonarskarði og víðar í kringum Bárðarbungu. 

„Menn hafa verið að túlka þessa skjálfta sem eru inni í og við brún öskjunnar sem aðlögun á öskjunni og þrýstingsbreytingar þegar kvika er að flæða úr kvikuhólfinu,“ segir Gunnar B. Guðmundsson sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofunni, aðspurður hvernig megi túlka þessa stóru skjálfta. „Menn gera ráð fyrir að kvikan sé að flæða inn í bergganginn sem hefur náð alveg norður í Dyngjujökul, meira en 25 kílómetra leið. Þetta sé aðlögun vegna þess mikla kvikuflæðis sem hefur farið úr henni.“

Á þessari mynd Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar af GPS færslum við Dyngjuháls sjást hreyfingar landsins síðustu daga mjög greinilega.