Indland: Myrti 14 ættingja sína

28.02.2016 - 07:15
Mynd með færslu
Frá Thane.  Mynd: Satyakamk  -  Wikimedia Commons
35 ára karlmaður myrti í gær 14 ættmenni sín, þar á meðal sjö börn, áður en hann framdi sjálfsmorð. Lögregla í Mumbai greindi frá þessu í morgun. Morðinginn lét til skarar skríða þegar fjölskyldan kom saman að kvöldi laugardags á heimili eins í fjölskyldunni í bænum Thane, um 30 kílómetra utan við Mumbai. Fréttaveitan AFP hefur eftir talmanni lögreglunnar að morðinginn hafi hengt sig eftir að hafa skorið alla aðra fjölskyldumeðlimi á háls, þar á meðal foreldra sína.

21 árs gömul systir morðingjans er sú eina sem lifði af. Nágrannar stukku til þegar þeir heyrðu hana hrópa á hjálp um miðnæturbil. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún liggur illa haldin, og því hefur ekki verið hægt að yfirheyra hana enn.

Fjölmiðlar í Mumbai greina frá því að morðinginn hafi sett slævandi lyf í matinn og ráðist á ættingja sína eftir að þeir liðu útaf. Í dagblaðinu Indian Express er því hins vegar haldið fram að fólkið hafi ætlað að gista þar sem það var gestkomandi, og morðinginn einfaldlega beðið þess að allir sofnuðu áður en hann réðist til atlögu með hníf að vopni.

Haft er eftir yfirmanni í lögreglunni í Thane að vísbendingar séu um að morðinginn hafi læst öllum dyrum og myrt fólkið meðan það svaf, með hníf sem fannst nærri líki hans. Lögregla hefur ekki viljað segja af eða á um það, hvort fórnarlömbunum hafi verið byrlað slævandi lyf áður en þau voru myrt. Allt er enn á huldu um mögulegar ástæður að baki þessu voðaverki. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV