„… I’m not here“

19.02.2016 - 17:21
Sigurbjörg Þrastardóttir ræddi um dægurlagatexta í vikulegum pistli í Víðsjá. Hér má lesa og hlusta á pistilinn.

 

Góðir hlustendur, mig dreymdi draum. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, mig dreymir yfirleitt svo mikið að ég ligg örmagna eftir, kannski er þetta rúmið, kannski lyfin sem ég tek á kvöldin, ég veit það ekki, en mig dreymir látlaust og get svo ekkert notað það þegar ég vakna. Nema núna, daginn fyrir gamlárs, þá mundi ég nokkurn veginn þráðinn, ef þráð skyldi kalla – mínir draumar eru meira eins og þæfð ull. Ég var á ráðstefnu, að safna efni fyrir blað sem ég er löngu hætt að vinna hjá. Ekki er auðvelt að segja um hvað ráðstefnan var, en á göngunum varð ég margs vísari um dægurlagatexta og mikilvægi þeirra. Aðallega erlenda dægurlagatexta. Ég hitti m.a. ungan mann sem hafði skrifað bók um efnið. Út úr tóminu hljómaði lag með hljómsveitinni Radiohead og maðurinn fletti textanum samstundis upp í bók sinni. Þar voru birtar ýmsar skýringar, sem ég hafði því miður ekki tíma til að lesa, í draumnum. En ég skynjaði að merkingin náði langt út fyrir tíðarandann, tískuna og vinsældirnar, hann var um eitthvað satt, jafnvel hinstu rök, ef hægt er að komast svo hátíðlega að orði.

Og í stuttu máli var þetta viðkvæði allra sem ég hleraði, þarna á göngum ráðstefnunnar; hversu mikilvægar og víðtækar skírskotanir góðra dægurlaga væru, ef textarnir væru skoðaðir. Músíkin sjálf virtist vera látin liggja á milli hluta. Ég ræddi við annan mann um hljómsveit sem hann kallaði í draumnum Depeche Mode, en ég vissi, í draumnum, að væri hljómsveitin Prodigdy. Þannig eru draumar, þið kannist við það. Sá réð mér frá því að horfa á nýja heimildamynd um sveitina, sem ég veit ekki hvort er til, sagði að hún væri jafn viðbjóðsleg og myndbönd sveitarinnar, en ef ég kæmist í handritið yrði ég margs vísari um – aftur – hinstu rök.

Kjarninn?

Og nú er komið að hluta sem ég skildi ekki alveg til fulls, þar sem ég lá sofandi í mínum veraldlegu sængurfötum. Tveir menn héldu því fram í draumnum, annar að vísu franskur, sem var bölvað því ég tala enga frönsku, að þeir sem rituðu Biblíuna á sínum tíma, hefðu verið svo eigingjarnir á leyndardóma guðdómsins að þeir hefðu að ásettu ráði dulkóðað þá í texta hinnar miklu bókar. Ég veit ekki hvort þið náið þessu eitthvað frekar, góðir hlustendur, og svo getur auðvitað hitt verið, að þetta sé almenn og eldgömul kenning. En sumsé, skrifararnir vildu samkvæmt þessu að menn hefðu virkilega fyrir því að komast að kjarna tilverunnar og þess vegna rituðu þeir alla þessa torkennilegu kafla, með langsóttu myndmáli og villuljósum. Í framhaldinu var kenning frönskumælandi mannanna (í draumnum) að rokk- og poppstjörnur nútímans hefðu tekið við því hlutverki í að nálgast einhvers konar falda mynd á bakvið veruleikann. Vandinn er sá að ég komst aldrei að því í draumnum a) hver þessi kjarni er og b) hvort textasmiðir nútímans vinna þetta verk meðvitað, eða hvort mikilvægið sé allt í kolli túlkendanna.

Í draumnum kom líka fram að notkun hugvíkkandi efna væri bein tilraun textasmiða til þess að komast nær kjarnanum, en það væri hending hvort slík efni gerðu tilætlað gagn, enda færi notkunin oft úr böndunum. Nú hljómar þetta sennilega eins og þetta hafi verið draumur um skaðsemi fíkniefna, en það var ekki þannig. Ég skynjaði þetta heldur ekki sem draum sem væri stefnt gegn trúarbrögðum eins og við þekkjum þau. Þetta var meira svona skemmtilegur vinkill, óvænt viðleitni til þess að hífa dægurtónlist upp í flokk með hinum fögru listum.

Ars morandi

Þessi draumur hefur komið aftur upp í kollinn á mér á liðnum vikum, þegar fræðingar hafa verið kallaðir fram á sviðið til þess að túlka verk, og ekki síst texta, dægurtónlistarmannsins Davids Bowie, sem hefur einmitt ítrekað verið kallaður poppgoð, eins konar spámaður. Listin að deyja, ars morandi, hefur fengið mikla umfjöllun í því samhengi og öll tákn talin skipta máli. Og enn nýrra dæmi er Beyoncé og blökkumenningin, en margbrotinn boðskapur texta hennar við lagið Formation virðist hafa snúið upp á skilning margra á mörgu, orðnu og óorðnu, í örlagasögu litaðra í Bandaríkjunum.

Það er kannski of langt gengið að dægurtónlistarmenn hafi tekið við hlutverki spámanna, en það er áhugavert að pælingar um hinstu rök séu iðkaðar af slíkri íþrótt af hlustendum og flytjendum tónlistar sem í fyrstu var víða bönnuð – vegna sódómsku, galgopaháttar, stjórnleysis.

Og þar með kveikti minn skrýtni draumur spurningu? Af hverju eru ekki haldnar í veruleikanum einmitt svona ráðstefnur, um heimspeki góðra dægurlagatexta og meint mikilvægi þeirra? Málstofur um tiltekna höfunda eru vissulega stundum haldnar – um Megas, um Jónas Árnason, Félag bókmenntafræðinema hélt einu sinni opinn umræðufund um dægurlagatexta gúanórokksins, það var árið 1980 – en fletirnir eru mun fleiri og fléttast við aðrar fræðigreinar. Ég meina, er ekki Radiohead að koma hingað? PJ Harvey? Er kannski ekki hægt að slíta textana frá tónlistinni? Er ekki alveg nægjanlegt djús í íslenskum textum? Misskildi ég drauminn af því að hluti hans var á frönsku?

Hendingar úr dægurlagatextum eru allavega mörgum tamari á tungu en gullaldarljóð og málshættir; þeir hljóta að geyma eitthvað sem skiptir máli, og hugsanlega ekki síður fyrir heildina en hvern og einn hlustanda.

 

 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi