Íhuga hernað í Líbíu

01.02.2016 - 16:53
epa04665315 Fighters loyal to Libya's parliament General National Congress (GNC) prepare to launch attacks as they continue to fight Islamic State (IS) on the outskirts city of Sirte, Libya, 16 March  2015. According to reports, pro-government
Liðsmenn stjórnarinnar í Tobruk.  Mynd: EPA
Breska stjórnin er að íhuga þátttöku í hernaði gegn vígasveitum Íslamska ríkisins í Líbíu. Breska blaðið Guardian greinir frá þessu, en segir að ákvörðun Breta ráðist af því hvort starfandi þingum í landinu takist að mynda saman starfhæfa stjórn.

Eftir viðræður í París í síðustu viku hafi Bandaríkjamenn og Frakkar hvatt til hernaðar gegn Íslamska ríkinu í Líbíu, en samtökin hafi haft sig þar talsvert í frammi undanfarið ár.

Bandarískir ráðamenn segja að kapp sé lagt á að koma í veg fyrir að Íslamska ríkið treysti sig í sessi í Líbíu, en að sögn Guardian hafa bandarískir sérsveitarmenn verið sendir þangað til að kanna leiðir til að hrekja sveitir samtakanna frá borginni Sirte og nágrenni, þar sem samtökin hafa bækistöðvar.

Guardian segir að stjórnvöld á Ítalíu séu að íhuga að vera með í hugsanlegum hernaðaraðgerðum í Líbíu, en breska forsætisráðuneytið hefði sagt í dag að þar hefði engin ákvörðun verið tekin.

Tvær stjórnir og tvö þing hafa verið starfandi í Líbíu, annað í Tobruk, en hitt í höfuðborginni Trípólí. Samkomulag náðist milli þeirra í desember um myndun nýrrar stjórnar, en enn er engin niðurstaða.